Berast iðulega tilkynningar um nýjar sprungur

Elgos í geldingadölum.
Elgos í geldingadölum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrr í dag barst Veðurstofunni tilkynning um að ný sprunga hefði myndast á Reykjanesskaga. Tilkynningin kom frá Landhelgisgæslunni sem flaug yfir svæðið í morgun.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, bendir á að sprungan sé við Höskuldarvöll, norðaustur af Keili, sem er þekkt háhitasvæði og að fyrir séu sprungur á svæðinu. Sprungan sé því líklegast gömul.

„Það rýkur aðeins úr henni en það er alveg þekkt að það gerist á þessu svæði,“ segir Elísabet.

Sérsveitin athugar svæðið

Elísabet segir sérsveit ríkislögreglustjóra ætla að athuga svæðið með gasmæli og svo séu sérfræðingar frá Veðurstofunni einnig að athuga málið til að vera vissir um að sprungan sé gömul.

Hjálm­ar Hall­gríms­son, sem sit­ur í vett­vangs­stjórn al­manna­varna í Grinda­vík fyr­ir hönd lög­regl­unn­ar á Suður­nesj­um, sagðist í samtali við mbl.is vilja minna á að iðulega berist tilkynningar um nýjar sprungur mjög víða á svæðinu í kringum gosstöðvarnar. 

Hjálmar benti ennfremur á að slíkar tilkynningar eigi í flestum tilfellum ekki við rök að styðjast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert