Blokkin og Grísafjörður tilnefnd

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er höfundur Grísafjarðar.
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er höfundur Grísafjarðar. mbl.is/Árni Sæberg

Skáldsögurnar Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur og Grísafjörður: Ævintýri um vináttu og fjör eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur eru tilefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021 fyrir Íslands hönd. Þetta var tilkynnt á vefnum fyrir stundu.

Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir þegar þær tóku við …
Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir þegar þær tóku við Barnabókaverðlaunum Guðrúnar Helgadóttur úr hendi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra fyrir Blokkina á heimsenda vorið 2020. Ljósmynd/Kristín Viðarsdóttir

Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 14 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn 2. nóvember í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur sem samsvarar tæpum 6,2 milljónum íslenskra króna.

Álandseyjar

Nattexpressen eftir Karin Erlandsson sem Peter Bergting myndlýsir. Unglingaskáldsaga, Schildts & Söderströms, 2020.

Danmörk

Vulkan eftir Zakiya Ajmi. Unglingaskáldsaga, Gads Forlag, 2020.

Den rustne verden, 3 - Ukrudt eftir Adam O. Framtíðarsögukvæði, Høst & Søn/Gyldendal, 2020.

Finnland

Mitt bottenliv – av en ensam axolotl eftir Lindu Bondestam. Myndabók, Förlaget M, 2020.

Kesämyrsky eftir Siiri Enoranta. Skáldsaga, WSOY, 2020.

Færeyjar

Sum rótskot eftir Marjun Syderbø Kjelnæs. Unglingaskáldsaga, Bókadeild Føroya Lærarafelags, 2020.

Grænland

Aima Qaqqap Arnaalu eftir Bolatta Silis-Høegh. Myndabók, Milik Publishing, 2020.

Ísland

Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Unglingaskáldsaga, Mál og menning, 2020.

Grísafjörður: Ævintýri um vináttu og fjör eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Unglingaskáldsaga, Salka, 2020.

Noregur

Min venn, Piraten eftir Ole Kristian Løyning sem Ronny Haugeland myndlýsir. Barnabók/skáldsaga, Vigmostad & Bjørke, 2020.

Aleksander den store eftir Peter F. Strassegger. Unglingaskáldsaga, Samlaget, 2020.

Samíska málsvæðið

Jođašeaddji Násti eftir Kirste Paltto sem Laila Labba myndlýsir. Unglingaskáldsaga, Davvi Girji, 2019.

Svíþjóð

Jag och alla eftir Ylvu Karlsson sem Sara Lundberg myndlýsir. Myndabók, Rabén & Sjögren, 2020.

De afghanska sönerna eftir Elin Persson. Unglingabók, Bonnier Carlsen, 2020.

Valdeflandi lestrarupplifun fyrir börn

Íslensku dómnefndina skipa Helga Ferdinandsdóttir, Markús Már Efraím og Halla Þórlaug Óskarsdóttir, sem er varamaður. Í umsögn dómnefndar um Blokkina á heimsenda segir meðal annars: „Þó að umfjöllunarefnin í Blokkin á heimsenda séu hápólitísk – náttúruvernd, samfélag og stjórnarfar – er frásögnin öll út frá sjónarhóli barna. Dröfn er sterk, hugrökk og gagnrýnin á umhverfi sitt. Hún greinir breyskleika foreldra sinna og samfélagsins, sem gerir lestrarupplifunina einstaklega valdeflandi fyrir barn.

Fjallar um einmanaleika af nærgætni

Í umsögn dómnefndar um Grísafjörð segir meðal annars: „Grísafjörður dregur fram mikilvægar spurningar um aukna fjarlægð milli fólks, kynslóða og nágranna. Setjum við sjálfum okkur mörk sem erfitt er að stíga yfir? Er einhvern tímann hentugt að fá fólk í óvænta heimsókn? Þetta er nærgætin umfjöllun um einangrun og einmanaleika, sem getur hrjáð bæði yngri og eldri kynslóðina, en sýnir líka leiðir til að mæta þessari ógn með hjartahlýju og kærleik. Í frásögninni er ákall til lesendahópsins um að láta sig annað fólk varða jafnvel þó að mann langi miklu meira að slappa af yfir teiknimyndum.

Bækurnar aðgengilegar á bókasafni Norræna hússins

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru yngstu verðlaun ráðsins, en þau voru fyrst veitt árið 2013. Norðurlandaráð veitir á hverju ári fimm verðlaun og eru þau auk barna- og unglingabókmennta á sviði bókmennta, kvikmynda, tónlistar og umhverfismála. Verðlaunum Norðurlandaráðs er ætlað að auka áhuga á bæði norrænu menningarsamfélagi og samstarfi um leið og viðurkenning er veitt fyrir framúrskarandi árangur á sviði lista og umhverfismála. All­ar nán­ari upp­lýs­ing­ar um verðlaun­in má nálg­ast á vefn­um: www.nor­d­en.org/​is/​bok­mennta­ver­d­laun­in  en þar má meðal annars lesa umsagnir dómnefnda. 

Þess má geta að allar tilnefndar bækur ársins eru aðgengilegar á frummálunum á bókasafni Norræna hússins. Þar má einnig nálgast allar vinningsbækur frá upphafi. Skrifstofa hvorra tveggja bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið til húsa í Norræna húsinu frá 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert