Bólusetja líklegast með efni AstraZeneca á morgun

Útlit er fyrir að 4.000 eldri borgarar fái boð í …
Útlit er fyrir að 4.000 eldri borgarar fái boð í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca í dag og á næstu dögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bólusetning með bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 hefst að öllum líkindum á morgun en nú er unnið að því að boða 4.000 manns í bólusetningu með efninu. Hafni fólk bólusetningu með bóluefni AstraZeneca fer það líklega aftast í röðina og þarf þá að bíða lengur eftir bólusetningu. Yngra fólk sem þegar hefur fengið einn skammt af bóluefninu mun líklega fá annan skammt þegar tíminn kemur. 

Fólk sem er fætt á árunum 1946, 1947 og 1948 verður væntanlega boðað í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca síðar í dag. 

„AstraZeneca hefur átt svolítið undir högg að sækja í umræðunni en við vonum að þátttakan verði góð. Sóttvarnalæknir mælir með bóluefninu fyrir þennan aldurshóp og við treystum því að það verði allt eins og best verður á kosið,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir,  fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, í samtali við mbl.is.

„Fólk verður að taka þessar ákvarðanir sjálft

Bólusetning með efni AstraZeneca var stöðvuð fyrir um tveimur vikum síðan vegna ótta um að það gæti valdið blóðtöpp­um. Síðan þá hafa Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in, AstraZeneca og Lyfja­stofn­un Evr­ópu sagt að bólu­efnið sé ör­uggt og eng­in tengsl séu á milli þess og blóðtappa. Í gær tilkynnti heilbrigðisráðherra svo að notkun bóluefnisins yrði heimiluð að nýju en einungis hjá fólki sem er 70 ára og eldra. 

„Sóttvarnalæknir mælir með bóluefninu fyrir þennan aldurshóp og við treystum …
„Sóttvarnalæknir mælir með bóluefninu fyrir þennan aldurshóp og við treystum því að það verði allt eins og best verður á kosið,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir. Ljósmynd/Lögreglan

Útlit er fyrir að fólk sem er yngra en 70 ára og hefur nú þegar fengið einn skammt af bóluefninu, t.d. framlínustarfsfólk sem fékk bólusetningu með því fyrir skömmu síðan, muni einnig fá seinni skammtinn af bóluefninu. Þrír mánuðir líða á mili þess að fyrri og síðari skammturinn af bóluefninu er gefinn. Endanleg ákvörðun um það hefur þó ekki verið tekin, að sögn Ragnheiðar.

Hún bendir á að það þýði ekkert að hver og einn heyri í sinni heilsugæslustöð til þess að kanna hvort það eigi að mæta eða ekki vegna einhverra sérstakra ástæðna. 

„Fólk verður að taka þessar ákvarðanir sjálft. Annars fáum við bara flóðbylgju yfir okkur af einhverjum einstaka spurningum svo við beinum því  til fólks að treysta sóttvarnalækni og því sem hann boðar því við höfum engin önnur svör en hans svör.“

Hefurðu áhyggjur af því að þátttakan verði minni vegna umræðunnar um bóluefni AstraZeneca?

„Við vitum einfaldlega ekki hvaða áhrif þetta mun hafa,“ segir Ragnheiður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka