„Gætir enginn hagsmuna okkar nema við sjálf“

Guðlaugur Þór Þórðarson segir reglugerð Evrópusambandsins ekki boðlega.
Guðlaugur Þór Þórðarson segir reglugerð Evrópusambandsins ekki boðlega. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Aðalatriði málsins er að við þurfum að gæta okkar hagsmuna sjálf. Það mun enginn gera það fyrir okkur. Við eigum að hafa allt úti til þess að sækja bóluefni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um bóluefnaöflun Íslands í kórónuveirufaraldrinum.

Hann fundar með nokkrum kollegum sínum í dag vegna boðunar Evrópusambandsins um útflutningshömlur á vör­um frá Evr­ópu­sam­band­inu til EFTA-ríkj­anna. Ákvörðun ESB á ekki að hafa áhrif á dreifingu bóluefna til Íslands. Íslensk stjórnvöld hafa kallað eftir breytingu á reglugerð Evrópusambandsins.

Segir reglugerðina ekki boðlega

„Við erum í EES, það er ekki heimilt að vera með neinar útflutningstakmarkanir á okkur. Þrátt fyrir að við höfum fengið skýr skilaboð um að þetta eigi ekki að hafa áhrif þá breytir það því ekki að við viljum ekki hafa svona inni,“ segir Guðlaugur Þór. „Það er skýrt af okkar hálfu að þetta er ekki boðlegt.“

Íslensk stjórnvöld fengu að vita af reglugerðinni klukkan ellefu í gærmorgun.

„Innan við tveimur tímum síðar vorum við búin að kalla á sendiherra ESB og sömuleiðis koma skilaboðunum áleiðis til Brussel í millitíðinni. Ég tók þetta upp á ríkisstjórnarfundi og Katrín hafði samband við Von der Leyen [forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins]. Síðan hef ég talað við utanríkisviðskiptaráðherra Svía og komið þessum skilaboðum skýrt áleiðis. Sömuleiðis höfum við utanríkisráðherra Noregs borið saman bækur okkar hvað þetta varðar en þeir hafa fengið sömu skilaboð og við,“ segir Guðlaugur Þór.

Sérstaða landsins mikilvæg

Stjórnvöld höfðu stefnt að því að frá og með fyrsta maí yrði litið til litakóðunarkerfis Sóttvarnastofnunar Evrópu þegar farþegar kæmu til landsins. Þannig yrðu aðgerðir þar harðari fyrir þá sem kæmu frá rauðum svæðum en þá sem kæmu frá grænum svæðum. Þessi stefna hefur hlotið töluverða gagnrýni. Spurður hvort þessi stefna sé til endurskoðunar segir Guðlaugur:  

„Það sýnir sig mjög vel í aðstæðum sem þessum að það gætir enginn hagsmuna okkar nema við sjálf og við þurfum að taka ákvörðun út frá eigin hagsmunum. Markmið stjórnvalda er mjög skýrt. Það er að sjá  til þess að við ógnum ekki öryggi landsmanna og þess vegna erum við með þessar sóttvarnaráðstafanir og höfum stigið varlega til jarðar og það stendur ekkert annað til en að gera það áfram.“

Guðlaugur Þór bætir því við að það liggi fyrir að Ísland muni ekki geta unnið sig út úr efnahagskreppunni nema með því að selja útlendingum vöru og þjónustu. Í því samhengi skipti sérstaða landsins miklu máli.

„Við erum með sérstöðu sem er mikilvægt að allir séu meðvitaðir um. Sérstaðan er sú að við erum í miðju Atlantshafinu. Við erum með viðskipti beggja vegna Atlantshafsins, bæði til austurs og vesturs,“ segir Guðlaugur Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert