Gasið berst enn til suðurs

Margir hafa lagt leið sína að eldgosinu í Geldingadölum.
Margir hafa lagt leið sína að eldgosinu í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gasið frá eldgosinu í Geldingadölum berst enn til suðurs og suðvesturs að sögn Huldu Rósar Helgadóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Stikuðu gönguleiðinni að eldgosinu í Geldingadölum hefur því lítillega verið breytt að sögn Hjálm­ars Hall­gríms­sonar, sem sit­ur í vett­vangs­stjórn al­manna­varna í Grinda­vík fyr­ir hönd lög­regl­unn­ar á Suður­nesj­um.

Þetta er gert vegna þess að sökum norðanáttar í dag hefur reykurinn af gosinu legið inn til suðurs og yfir stikuðu gönguleiðina.

Gönguleiðinni hefur því að sögn Hjálmars verið breytt á miðri vegu og tekin aðeins vestur upp á fjall og að gosinu. 

„Þetta var bara smávægileg breyting á gönguleiðinni, ég efast um að hún sé nokkuð lengri,“ segir Hjálmar og bætir við:

„En þetta er eldgos, við leggjum fram öruggustu leiðina en vindurinn er eins og hann er, hann getur verið breytilegur og þá verðum við að bregðast við en fólk verður náttúrulega alltaf að vera með athyglina í lagi.“

Covid ástandið flækir

Að lokum vill Hjálmar brýna fyrir fólki að það sem flæki þetta allt saman sé Covid ástandið og að fólk verði að hafa það í huga þó það sé að labba úti í náttúrunni. Fjöldinn er mikill og mikið um hópamyndanir.

„Reyna að muna það að það er Covid,“ segir Hjálmar.

„Ekkert útivistaveður"

Á vef Veðurstofu Íslands segir að í kvöld megi búast við norðlægri átt 13-20 og snjókomu í kvöld og nótt með lélegu skyggni. Kemur þar þá fram að það verði „ekkert útivistarveður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert