Hæstiréttur mildaði dóm yfir Júlíusi Vífli

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson. mbl.is/​Hari

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag dóm yfir Júlí­usi Víf­li Ingvarssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, fyrir peningaþvætti  með því að hafa geymt sem nem­ur á bil­inu 131-146 millj­ónir króna á er­lend­um banka­reikn­ing­um. Pen­ing­anna aflaði hann sér á ár­un­um 1982 til 1993 er hann starfaði hjá Ingvari Helga­syni.

Júlíus Vífill hafði áður verið sakfelldur í héraði í desember árið 2018 þar sem refsing var ákveðin 10 mánuðir skilorðsbundnir. Í Landsrétti var refsing hans staðfest en Hæstiréttur ákvarðaði refsingu Júlíusar Vífils sex mánuði skilorðsbundna í dag. 

Fimm dómarar dæmdu í málinu og skilaði einn hæstaréttardómari, Ólafur Börkur Þorvaldsson, sératkvæði og taldi brot Júlíusar fyrnt. Tekist var sérstaklega á um fyrningu brota, gildistöku og gildissvið laga er sett voru á meðan ástandsbrot Júlíusar voru framin, við málflutning í Hæstarétti.

Aðrir dómarar sem dæmdu voru Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Óumdeilt er að skattalagabrot Júlíusar Vífils voru fyrnd og að ávinningur brotanna féll til fyrir þann tíma er sjálfsþvætti var gert refsivert með lögum árið 2010. 

Í dómi Hæstaréttar kom fram að í málinu væru uppfylltar þær kröfur um sönnun frumbrots og ávinnings sem væru gerðar í peningaþvættismálum.

Í dóminum var rakið að sú háttsemi Júlíusar Vífils sem ákært var fyrir hefði staðið yfir þegar sjálfsþvætti var gert refsivert 1. janúar 2010 og þar til Júlíus Vífill ráðstafaði ávinningnum inn á annan bankareikning árið 2014. Hæstiréttur taldi því ákvæði stjórnarskrárinnar um bann við afturvirkri beitingu refsilaga ekki koma til álita.

Þá er, í dómsorði, vísað í tilgang 264. greinar almennra hegningarlaga og þeirra hagsmuna sem því væri ætlað að vernda var talið að brot gegn því sem fælu í sér ástandsbrot fyrntust ekki fyrr en ástandinu lyki. Því var niðurstaða hins áfrýjaða dóms héraðsdóms og Landsréttar staðfest um sakfellingu Júlíusar Vífils Ingvarssonar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka