Hermenn úr norska hernum, sem staddir eru á landinu við loftrýmisgæslu á Keflavíkurflugvelli, lögðu margir leið sína að eldgosinu í Geldingadölum í gær.
Einar Skúlason leiðsögumaður greinir frá því að herliðið hafi, eins og aðrir, lent í umferðaröngþveiti sem myndaðist á Suðurstrandarvegi.
Þeir hafi gripið til sinna ráða og hreinlega lyft bílum og fært þá úr vegi.
„Allt var fast í hnút um kvöldmatarleytið og enginn komst áfram. Norskir hermenn úr loftrýmisgæslunni á Keflavíkurflugvelli höfðu verið að skoða gosstöðvarnar og lentu auðvitað í sama hnútnum og aðrir þegar rútur þeirra voru að reyna að komast áfram.
Þeir voru hins vegar lausnamiðaðir og gengu á undan rútunum og einfaldlega færðu þá bíla sem þurfi að færa og þannig leystist umferðarhnúturinn,“ segir Einar í færslu um málið.