Innrétta íbúðir í stáltunnugerð

Svona lítur Ægisgata 7 út í dag. Húsið, ásamt bakhúsi, …
Svona lítur Ægisgata 7 út í dag. Húsið, ásamt bakhúsi, hefur undanfarin ár verið notað sem geymsla Alþingis. mbl.is/sisi

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk um að innrétta íbúðir í iðnaðarhúsinu Ægisgötu 7. Áformað var að innrétta þar 23 íbúðir en skipulagsfulltrúinn vill að þeim verði fækkað svo rýmra verði um íbúðirnar. Húsið Ægisgata 7 er á besta stað í borginni, skammt frá gömlu höfninni.

Húsið var byggt árið 1939 eftir teikningum Gústafs E. Pálssonar og var upphaflega notað sem tunnuverksmiðja Stáltunnugerðar Bjarna Péturssonar. Húsið er steinsteypt, þrílyft með kjallara og risi og er samkvæmt húsakönnun síðfúnkisverksmiðjuhús. Húsið var hækkað og stækkað árið 1942 eftir teikningum Gústafs. Það var svo stækkað aftur árið 1944 eftir teikningu A. Steingrímssonar. Húsið er í dag nýtt undir geymslur á vegum Alþingis en leigusamningur rennur út í næsta mánuði.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 19. febrúar sl. var lögð fram fyrirspurn M3 fasteignaþróunar ehf. dags. 14. febrúar 2021 um breytingu á notkun hússins á lóð nr. 7 við Ægisgötu sem felst í að breyta iðnaðarhúsnæði í íbúðarhúsnæði, samkvæmt tillögu Teiknistofu arkitekta Gylfa Guðjónssonar og félaga ehf. og M3 fasteignaþróunar ehf.

Fram kemur í fyrirspurninni að við Ægisgötu 7 sé einstakt tækifæri til skapandi endurnýjunar á iðnaðarhúsnæði sem þjóni ekki lengur kröfum nútímans. Steinsteypt burðarvirki hússins sé í góðu ástandi að mati verkfræðinga og með minniháttar breytingum verði hægt að útfæra 23 hagkvæmar borgaríbúðir af fjölbreyttri gerð með þjónusturými í kjallara. Stúdíóíbúðir verði þrjár, tveggja herbergja íbúðir 10, þriggja herbergja íbúðir sjö og fjögurra herbergja íbúðir þrjár.

Svalir íbúðanna munu setja svip sinn á Ægisgötu 7 eftir …
Svalir íbúðanna munu setja svip sinn á Ægisgötu 7 eftir breytingar. Mynd/Teiknistofa arkitekta



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert