Misjafnt hvort fermingum sé frestað

Ferming á höfuðborg­ar­svæðinu.
Ferming á höfuðborg­ar­svæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjöldi ferminga var á dagskrá um helgina en nú hefur mörgum fermingum þjóðkirkjunnar og öllum borgaralegum fermingum á vegum Siðmenntar verið frestað vegna nýrra samkomutakmarkana.

Pétur Georg Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu, segir í samtali við mbl.is allan gang vera á því hvort að fermingar muni eiga sér stað um helgina. Pétur bendir á að það séu bæði sóknir sem ætli að fresta og sóknir sem ætli að ferma en þá verði það gert í fleiri hollum og færri í hverju holli.

Það liggur þó ekki fyrir, að sögn Péturs, hvenær fermingarnar muni eiga sér stað. Þó sé klárt mál að þeim sem er frestað, verði frestað um þrjár vikur. 

Pétur segir almenna upplifun vera sú að fólk sé farið að lifa með þessu ástandi.

„Enginn er brjálaður“

„Þetta eru vonbrigði en við erum búin að læra rosa vel að sýna þessu æðruleysi. Enginn er brjálaður og enginn eitthvað yfir sig kátur,“ segir Pétur.

Í einhverjum tilfellum henti það vel fyrir fjölskylduna að fermingin eigi sér stað núna og þá sé beðið með veisluna en í öðrum tilfellum henti það vel fyrir fjölskylduna að bíða með þetta.

Að sögn Péturs komst í fyrra ágætis reynsla á það að ferma „í svona færibandi“. Þá voru færri í hverju holli og fleiri holl.

Á endanum er það hver sókn sem tekur ákvörðun. En Pétur bendir á að í bréfi biskups hafi hún hvatt sóknirnar til að leita leiða með foreldrum og börnum, hvort sem það væri að ferma í svona hollum eða fresta fermingu. Það væri mikilvægt að þetta samtal færi fram. 

Fermingum hjá Siðmennt frestað

Einnig stóð til að ferma hjá Siðmennt um helgina en að sögn Siggeirs Fannars Ævarssonar, framkvæmdastjóra Siðmenntar, er það allt saman farið út af borðinu.

Siggeir bendir á, í samtali við mbl.is, að þrátt fyrir að nýju reglurnar geri ráð fyrir því að trúar- og lífsskoðunarfélög geti haldið 30 manna samkomur þá hafi aldurstakmarkið á börnum verið hækkað og þau telji nú með.

„Þetta yrðu þá afskaplega litlar athafnir og við ákváðum að þetta myndi nú missa ákveðinn hátíðleika ef við færum að gera þetta í einhverju svona strípuðu formi þannig að vandlega athuguðu máli ákváðum við að fresta þessu núna,“ segir Siggeir.

Siggeir segir að nýjar dagsetningar hafi ekki verið gefnar út en þegar faraldurinn fór af stað í fyrra voru auka dagsetningar bókaðar svo Siðmennt á dagsetningar bókaðar í bæði Borgarleikhúsinu í júní og Hörpu í ágúst. Líklega verði því athöfnum fjölgað þar í kring.

Bíða enn eftir fermingu ári síðar

679 börn eru skráð í fermingu hjá Siðmennt í ár. Þar af eru 33 börn sem áttu að fermast í fyrra en bíða enn eftir fermingu. Um síðustu helgi fermdi Siðmennt um 160 börn að sögn Siggeirs.

„En við höfum í raun ekki bolmagn í það að vera með ég veit ekki hversu margar athafnir fyrir öll þessi börn, myndi hlaupa á tugum. Yrði einhvers konar færibandavinna sem okkur hugnaðist ekki,“ segir Siggeir.

Siggeir bendir á að fermingin sé eins konar útskriftarathöfn úr námskeiði hjá Siðmennt. Þannig sé alltaf utanaðkomandi ræðumaður, atriði frá börnum, stutt ávarp og síðan fái allir skírteini sitt í lokin.

„Svo við sáum ekki alveg hvernig við áttum að halda því formi með einhver örfá börn í hverri athöfn,“ segir Siggeir.

Fólk sýni fullan skilning

Aðspurður segir Siggeir að heilt yfir sýni fólk þessu fullan skilning.

„Við erum búin að fá mikið af þökkum og hvatningu. Upplýsingaflæðið gott og þar fram eftir götum. En auðvitað er einn og einn sem er bara langþreyttur og börnin náttúrulega sem eru búin að bíða í meira en ár. Þeim finnst þetta erfitt.“

„Þetta hefur verið rosa áskorun og búið að vera langt tímabil. Alltaf að bregðast við aftur og aftur en við náttúrulega tökum þetta bara með þolinmæði og æðruleysi og þetta hefst allt að lokum vonandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert