Stutt tímabil nafnleyndar var í gildi hjá þjóðkirkjunni í upphafi ársins en því lauk fyrr í mánuðinum með samþykkt kirkjuþings.
Innan þessa tímabils voru auglýst laus til umsóknar tvö störf sóknarpresta, í Dala- og Reykholtsprestaköllum, sem bæði eru í Vesturlandsprófastsdæmi. Umsóknarfrestur rann út í síðasta mánuði og nöfn umsækjenda verða ekki birt. Þau verða ekki gefin upp opinberlega af hálfu Biskupsstofu, þar sem talið er að þegar prestaköllin voru auglýst hafi lög ekki heimilað slíkt vegna lagabreytinga í tengslum við viðbótarsamning ríkis og kirkju. Samkvæmt nýjum reglum er talað um störf, ekki lengur um prestsembætti.
Á vef Biskupsstofu hefur nú verið tilkynnt að Snævar Jón Andrjesson guðfræðingur hafi verið kjörinn sóknarprestur í Dalaprestakalli. Ráðning prests til að sitja Reykholt í Borgarfirði er í vinnslu, að sögn sr. Þorbjarnar Hlyns Árnasonar prófasts.
Á kirkjuþingi 2020, sem lauk 12. mars sl., var samþykktt tillaga að breytingu á starfsreglum um val og veitingu prestsembætta. Tillagan hljóðar svo: „Nöfn umsækjenda verði birt á opnum vef þjóðkirkjunnar að liðnum umsóknarfresti, hafi ekki verið óskað nafnleyndar. Nafnleynd umsækjenda á ekki við þegar um almennar prestskosningar er að ræða sbr. 13. gr. starfsreglnanna,“ að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.