Reyna að átta sig á aðstæðum

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum nú að reyna að horfa bæði til skamms tíma og svo lengri tíma inn í páskana. Þetta fer bara svo mikið eftir veðri og vindum hverju sinni og menn eru að reyna að átta sig á aðstæðum og reyna að bregðast við,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í samtali við mbl.is.

Bendir Fannar á að nú sé búið að stika nýja gönguleið að gosstöðvunum í Geldingadölum, hluta leiðarinnar, til þess að mæta því ef gas leggur yfir fyrri gönguleiðina.

„Svo er verið að reyna að einhvern veginn að taka á þessum bílastæðamálum eða skorti á bílastæðum öllu heldur og öllum þessum mikla fjölda við Suðurstrandarveginn,“ segir Fannar.

Um sé að ræða samstarfsverkefni lögreglunnar og viðbragðsaðila, björgunarsveita og starfsmanna Grindavíkurbæjar.

Eldgos í Geldingadölum.
Eldgos í Geldingadölum. Ljósmynd/Hreiðar Júlíusson

Vegurinn laskaður

Aðspurður segir Fannar að eitt af því sem verið sé að skoða sé að útbúa bílastæði og bætir við:

„Við vorum komin svolítið áleiðis með að útfæra rútuferðir úr bænum með fólk á svæðið en það varð að setja það allt saman á ís náttúrulega út af covid. Það hefði getað létt á þessu og að sumu leyti einfaldað hlutina.“

Vegurinn í Festarfjalli var sömuleiðis orðinn svolítið laskaður að sögn Fannars svo það er verið að gera við hann. Það olli ákveðnum vandræðum en loka þurfti annarri akreininni og á tímabili var veginum alfarið lokað.

Ekkert sem bendir til þess að grípa þurfi til rýmingaráætlana

Aðspurður segir Fannar að til séu bæði viðbragðsáætlanir og rýmingaráætlanir fyrir Grindavík sem eru meira en ársgamlar.

„En það er svo sem ekkert sem bendir til þess að það þurfi að beita því núna. Fólki er ráðlagt að fylgjast líka vel með gasinu og vindáttum og hvort það stefni á bæinn þó svo það sé nú ekki talið að það valdi miklum vandræðum, þá getur það valdið ákveðnum óþægindum ef vindinn leggur frá gossvæðinu og yfir til okkar. Það er eitt af því sem menn eru að vakta líka,“ segir Fannar og bætir við:

„Svo er það auðvitað bara lögreglunnar að rýma svæðið, eins og var nú gert í gær, vegna þess að það var bara talin hætta á mikill gasmengun umhverfis gígana. Þá getur þurft að biðja fólk um að yfirgefa svæðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert