Á síðustu tveimur vikum aprílmánaðar fá Norðmenn 52.000 skammta af bóluefni Janssen gegn kórónuveirunni, 258.000 skömmtum færri en norsk stjórnvöld höfðu vonast til. Miðað við höfðatölu ættu Íslendingar að fá 3.500 skammta af efninu á síðustu tveimur vikum aprílmánaðar, skammta sem duga til þess að bólusetja jafn marga Íslendinga.
RÚV greindi frá því fyrr í dag að bóluefnið eigi að koma til landsins 16. apríl næstkomandi og hafði það eftir umsjónarmanni bóluefnadreifingar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Tv2 Nyheter greindu frá því í gær að Norðmenn fengju mun færri skammta af Janssen en vonir stóðu til. Ekkert hefur verið gefið út opinberlega um skammtafjölda af bóluefninu sem á að koma hingað til lands í aprílmánuði en íslensk stjórnvöld sömdu við Johnson & Johnson, eiganda Janssen, um 235.000 skammta af bóluefninu. Hver einstaklingur þarf einungis einn skammt af bóluefninu til þess að öðlast fulla bólusetningu svo umsamið bóluefni dugir í raun fyrir þorra þeirra 280.000 sem á að bólusetja hér á landi.
Tæplega 40.000 manns hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni hérlendis en hver einstaklingur þarf tvo skammta af þeim bóluefnum sem eru í umferð hérlendis til þess að öðlast fulla bólusetningu gegn Covid-19.
Bóluefni Janssen var veitt skilyrt markaðsleyfi á Íslandi 11. mars síðastliðinn. Síðan þá hefur lítið sem ekkert heyrst um það hvenær bóluefnið komi til landsins fyrr en í dag.
Íslensk stjórnvöld hafa samið við sex bóluefnaframleiðendur um bóluefni. Þrjú þeirra hafa nú þegar komið reglulega til landsins en þrjú eru enn ekki komin. Tvö efnanna, bóluefni Sanofi annars vegar og bóluefni CureVac hins vegar, hafa ekki enn verið samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu. Samþykki hennar er enn forsenda þess að bóluefni fái markaðsleyfi á Íslandi.