Á síðustu tveimur vikum aprílmánaðar er von á 4.800 skömmtum af bóluefni Janssen til landsins. 2.400 skammtar eru væntanlegir 16. apríl og annað eins 26. apríl.
Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í umræðu um hertar sóttvarnaaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins á Alþingi.
Íslensk stjórnvöld sömdu við Johnson & Johnson, eiganda Janssen, um 235.000 skammta af bóluefninu. Hver einstaklingur þarf einungis einn skammt af bóluefninu til þess að öðlast fulla bólusetningu svo umsamið bóluefni dugir í raun fyrir þorra þeirra 280.000 sem á að bólusetja hér á landi.