Ákvað á Hvannadalshnjúk að klífa hæstu tinda heims

Yandy Nunez Martinez á toppi Elbrus í Rússlandi, í 5.642 …
Yandy Nunez Martinez á toppi Elbrus í Rússlandi, í 5.642 metra hæð. Sem fyrr bæði með íslenska og kúbverska fánann. Ljósmynd/Instagram

Yandy Nunez Martinez er Kúbverji sem búið hefur á Íslandi í sex ár. Hann flýgur utan á morgun til Genf í Sviss og þaðan til Nepal þar sem hann mun freista þess að verða fyrsti Kúbverjinn til þess að klífa hæsta fjall heims, Mount Everest.

Yandy tekur alltaf íslenska fánann með sér í allar fjallgöngur og flaggar honum á toppnum, við hlið kúbverska fánans. Yandy er kvæntur Halldóru Bjarkadóttur og saman eiga þau eitt barn. Yandy segir því að Ísland standi honum nærri og að hann vilji taka Ísland með sér á topp Everest.

Athafna- og einstaklingsfrelsi á Íslandi er, að hans sögn, það sem gerir honum kleift að elta drauma sína. Það segir hann að væri ekki hægt, byggi hann enn á Kúbu. 

Yandy og kona hans, Halldóra Bjarkadóttir.
Yandy og kona hans, Halldóra Bjarkadóttir.

Ástríðan kviknaði á Íslandi

„Spenntur, stressaður og með margt að hugsa um,“ segir Yandy við mbl.is um hvernig honum líði. Yandy mun ferðast með þremur frönskum fjallgöngumönnum sem munu fylgja honum í grunnbúðir Everest, en þá skilja leiðir og þeir fara á toppinn sitt í hvoru lagi.

Ferðaáætlun Yandys gerir ráð fyrir að hann nái toppi Everest í maí. Hann útskýrir fyrir mbl.is að nú liggi leið hans til Genfar, eins og fyrr segir, þar sem hann mun hitta frönsku ferðafélagana þrjá og síðan verða þeir samferða alla leið að grunnbúðunum. 

Á toppi Hvannadalshnjúks. Þar segist Yandy hafa ákveðið að klífa …
Á toppi Hvannadalshnjúks. Þar segist Yandy hafa ákveðið að klífa alla hæstu tinda heims. Ljósmynd/Aðsend

Yandy segir að ástríða hans á fjallgöngu hafi kviknað þegar hann flutti til Íslands árið 2015. Stórbrotið landslagið hafi hrifið hann svo að hann hóf að klífa hvern tindinn á fætur öðrum. Hann hefur nú klifið alla helstu tinda landsins, meðal annars þann hæsta, Hvannadalshnjúk. Yandi segist gríðarlega þakklátur þeim stuðningi sem hann fékk, annars vegar frá hjálparsveitum skáta í Garðabæ og Ferðafélagi Íslands hins vegar. Í þeim félagsskap hafi hann lært öll réttu handtökin.

Á toppi Hvannadakshnjúks ákvað Yandy að hann skyldi klífa alla hæstu tinda heims. Árið 2019 kleif hann Mont Blanc í Frakklandi og síðar sama ár varð hann fyrsti Kúbverjinn til þess að klífa Elbrus í Rússlandi. Undir lok árs 2019 náði Yandi svo á topp Aconcagua-fjalls í Argentínu. Hann hefur því klifið hæstu fjöll tveggja heimsálfa, Ameríku og Evrópu. 

Í grunnbúðum Aconcagua-fjalls í Argentínu.
Í grunnbúðum Aconcagua-fjalls í Argentínu. Ljósmynd/Aðsend



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka