Allt unglingastig Víðistaðaskóla í sóttkví

Víðisstaðaskóli. Þar eru nú um 230 manns komnir í sóttkví, …
Víðisstaðaskóli. Þar eru nú um 230 manns komnir í sóttkví, allir nemendur á unglingastigi og um 20 kennarar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir nemendur á unglingastigi, 209 talsins, og um 20 starfsmenn í Víðisstaðaskóla í Hafnarfirði eru nú komnir í sóttkví eftir að smit greindist í dreng í 8. bekk. Sá er vinur annars drengs úr Öldutúnsskóla, sem greindist með veiruna á þriðjudag seinasta.

Þeir höfðu hist og síðar mætt smitaðir, hvor í sinn skóla. Talið er að um breska afbrigði veirunnar sé að ræða. Þetta staðfestir Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri Víðisstaðaskóla, við mbl.is, en Vísir greindi fyrst frá.

Þeir sem sendir hafa verið í sóttkví verða þá boðaðir í sýnatöku á þriðjudag eða miðvikudag og eru í sóttkví þar til niðurstöður liggja fyrir. 

Um 500 nemendur eru í skólanum en þeir voru allir sendir í snemmbúið páskaleyfi þegar sóttvarnaaðgerðir voru hertar á miðvikudag. Öllum skólastigum var þá lokað nema leikskólum. Hrönn segir að starfsmenn Víðisstaðaskóla séu ánægðir með aðgerðirnar.

„Þetta var mjög gáfuleg aðgerð hjá stjórnvöldum að stoppa skólahaldið og maður er bara voða feginn að það hafi verið gert þegar svona kemur upp. Það verður miklu léttara að vinna alla hluti og þetta strax borgaði sig,“ segir Hrönn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert