„Nú er svo komið að við hér í Rangárþingi ytra teljum nóg komið,“ segir í yfirlýsingu byggðaráðs Rangárþings ytra vegna þess hnúts sem söluferli Kjarvals á Hellu virðist komið í.
„Annaðhvort fær Festi hf. leyfi til þess að reka hér áfram sína ágætu verslun, og þá gjarnan þannig að bætt verði í og opnuð hér Krónubúð, eða þá að Festi hf. snýr sér að því að selja Kjarvalsverslun sína hér á Hellu til aðila sem teljast keppinautar og hafa til þess nægjanlegt afl.“
Í yfirlýsingunni er forsaga málsins rakin. Við kaup Festar hf. á N1 úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að Festi hf. væri komin í einokunaraðstöðu á dagvöruverslun í Rangárvallasýslu. Gerð var sátt í málinu þar sem kveðið er á um að selja skuli verslunina á Hellu.
Í skilyrðum sáttarinnar kemur fram að verslunin Kjarval skuli aðeins seld til aðila sem sé til þess fallinn og líklegur til að veita umtalsvert samkeppnislegt aðhald við sölu dagvöru á svæðinu.