Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar var bólusettur með bóluefni breska lyfjafyrirtækisins AstraZeneca í Laugardalshöll í dag. Stefnt er að því að allir eldri en 70 ára verði bólusettir á næstu tveimur vikum, en sjálfur verður Kári 72 ára í apríl.
„Þetta var bara eins og að fá flensusprautu. Það kom brosmild kona sem stakk sprautu í hægri öxlina á mér og sprautaði þessu í mig,“ sagði Kári í samtali við mbl.is eftir bólusetninguna. „Ég er hræddur við alls konar en ekki þetta,“ segir Kári um efnið frá AstraZeneca.
Kári fékk skyndilegt boð um að koma í bólusetningu í dag en átti að koma síðar og fá annað efni. Flýta mátti fjölda bólusetninga vegna ákvörðunar um að hefja aftur notkun á AstraZeneca.
Kári kveðst enga sérstaka skoðun hafa á því hvaða efni hann fær og er ánægður með AstraZeneca, enda þótt vissulega hafi umræðan í kringum efnið orðið nokkuð neikvæð.
„Sagan um AstraZeneca-bóluefnið hefur þróast illa. Ég held að þetta sé bóluefni sem sé mjög svipað að virkni og Pfizer og Moderna og ég held að munurinn á áhrifum þeirra sé innan tölfræðilegra marka. Að auki held ég að hættan af þessu sé ekkert meiri en af hinum bóluefnunum og sé býsna lítil. Við skulum hafa það í huga að tugir milljóna manna hafa verið bólusettir með þessu bóluefni,“ segir Kári.
Notkun bóluefnisins var eins og þekkt er hætt víða á Vesturlöndum vegna þess að tengsl á milli þess og blóðtappa voru talin hugsanleg. Málið var skoðað af vísindamönnum og lyfjastofnunum og eftir það tekin ákvörðun um að nota það á nýjan leik.
Kári segir að nú eftir fyrstu sprautuna eigi hann að njóta um 55% verndar gegn Covid-19 og einnig eigi hann að ráða betur við veikindin ef þau herja á hann. Eftir þrjá mánuði fær hann næstu sprautu og þangað til ætlar hann áfram að haga sér með fullri varúð.
Margir verða slappir eftir sprautuna og þurfa að taka því rólega dagana á eftir. Kári vonar að þau verði ekki örlög hans. „Ég vona að það gerist ekkert sem breyti áætlun minni um að hreyfa mig mikið um helgina. Ég er með ágætis aðstöðu til þess heima sem ég hef verið að byggja upp hægt og rólega í þessari pest,“ segir hann.
Miðað er við að bólusetningu meirihluta landsmanna verði lokið í júlí og Kári hefur lofað frammistöðu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.
Nokkuð er liðið síðan þjóðin varð fyrir miklum vonbrigðum þegar Pfizer-samningurinn gekk ekki í gegn. Talað var um að það hafi verið vegna of góðs gengis Íslands í baráttunni við veiruna en Kári telur ekki að breytt ástand hér á landi nú geti orðið til þess að efla aðra atlögu Íslendinga að svona samningi.
„Ég held að það sé dautt mál og menn eru á allt öðrum stað núna,“ segir Kári. Hann er þó langt í frá í fýlu út í nokkurn mann og því síður fyrirtæki, enda skilar það að hans sögn engu.