Ferðagjöfin hefur verið framlengd

Ferðamenn við Strokk.
Ferðamenn við Strokk. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt aðra framlengingu á ráðstöfun sem felur í sér veitingu stafrænna ferðagjafabréfa til einstaklinga til að verja í ferðaþjónustu innanlands.

Ráðstöfunin felur í sér veitingu ferðagjafabréfa að fjárhæð 5.000 króna (u.þ.b. 33 evra) til einstaklinga til notkunar hjá innlendum fyrirtækjum í ferðaþjónustunni.

Einstaklingar sem eru fæddir árið 2002 eða fyrr, með íslenska kennitölu og lögheimili á Íslandi eiga rétt á stafrænu ferðagjafabréfi. Ráðstöfunin, sem var samþykkt 15. júní 2020, er hugsuð sem tímabundinn stuðningur við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þann 15. desember 2020, var ráðstöfunin framlengd til 31. maí 2021, að því er segir í tilkynningu.

Frá því að ráðstöfunin tók gildi í júní 2020 og þar til 21. mars 2021 hafa 137.000 einstaklingar (af þeim 280.000 sem eiga tilkall til gjafabréfsins) nýtt sér starfræna gjafabréfið sitt. Heildarfjárhæð ráðstöfunarinnar er 1.5 milljarðar króna.

685 milljónir í 812 fyrirtækjum

Eins og er hefur 685 milljónum króna verið varið á veitingastöðum, í gistinætur og ýmsa afþreyingu. Alls hafa 812 fyrirtæki notið góðs af ráðstöfuninni.

Strangar tímabundnar sóttvarnarráðstafanir hafa takmarkað möguleikana á notkun stafrænu gjafabréfanna. Í kringum 143.000 gjafabréf standa enn ónotuð. Íslensk stjórnvöld hafa því ákveðið að framlengja ráðstöfunina til 30. september 2021 til að auka stuðning við íslenska ferðaþjónustu yfir sumarmánuðina og mæta aukinni innlendri eftirspurn.

Hinn framlengdi tímarammi ráðstöfunarinnar er í samræmi við endurnýjaðan tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi heimsfaraldurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert