Smitrakning í kringum smit sem greindist utan sóttkvíar í gær gengur vel, að sögn upplýsingafulltrúa almannavarna. Uppruni smitsins er enn óþekktur en nú er unnið að því að senda fólk sem tengjast hinum smitaða í sóttkví. Viðkomandi var á gossvæðinu í Geldingadölum nýverið en ekki er hægt að gefa upp hvaða dag hann var þar.
Almannavarnir hafa miklar áhyggjur af ýmsu hvað varðar persónubundnar sóttvarnir á gossvæðinu. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna segir að hver og einn beri ábyrgð á sjálfum sér, þeir sem sjá um gönguleiðina á svæðinu geti ekki verið gerðir ábyrgir.
„Þetta getur alveg orðið svæði þar sem fólk þarf að passa sig, huga að sóttvörnum og mögulega vera með grímu. Ég sá mynd í gær á Instagram þar sem fólk var að toga sig upp eftir sama reipinu. Það er bara staður fyrir kórónuveiruna sem hinkrar eftir þér. Ef þú ætlar að koma við þetta reipi skaltu hafa hanska, hugaðu að sóttvörnum þó þú sért úti í náttúrunni vegna þess að veiran er þarna,“ segir Hjördís.
„Fólk ber ábyrgð á sjálfu sér. Við getum ekki sett ábyrgð á þá aðila sem eru að hjálpa fólki að sjá þetta stórfenglega eldgos.
Mælið þið með því að fólk sem hefur mætt á gossvæðið og er með einkenni fari í sýnatöku?
„Við mælum með því við alla að fara í sýnatöku við minnstu einkenni, hvort sem fólk hefur verið á gossvæðinu eða ekki. Sérstaklega á þessum tímum þegar við erum að greina fólk utan sóttkvíar,“ segir Hjördís.
„Það frábæra við okkar kerfi er að við getum farið á netið, pantað okkur einkennasýnatöku og verið mætt í sýnatöku annað hvort sama dag eða daginn eftir. Það eru ekki allir sem hafa aðgengi að slíku þannig að við hvetjum fólk til þess að nota kerfið okkar.“