„Heimili landsins juku verulega við húsnæðisskuldir sínar á árinu 2020. Áhrif vaxtahækkana á greiðslubyrði og fjárhagslega stöðu heimila í kjölfar „kófsins“ gætu orðið töluverð. Framlenging á ráðstöfun séreignarsparnaðar til 2023 er mikilvæg áhætturáðstöfun fyrir heimili á tímum skerts afkomuöryggis og aukinnar efnahagsóvissu,“ segir í nýrri greiningu BHM.
Bandalagið hvetur stjórnvöld til að framlengja heimild húsnæðiseigenda til að greiða séreignarsparnað skattfrjálst inn á húsnæðislán til ársins 2023 hið minnsta. Heimildin mun að óbreyttu falla úr gildi 30. júní næstkomandi.
Í greiningu BHM kemur fram að ný útlán til heimila með veði í íbúð nær þrefölduðust á síðasta ári frá árinu á undan. Bent er á að skattfrjáls ráðstöfun séreignarinnar inn á húsnæðislán hafi létt verulega með heimilum landsins. Frá 2014 hafi raunhækkun húsnæðisverðs þ.e. umfram verðbólgu, mælst 53% samanborið við 23% hækkun að meðaltali í löndum OECD.
Frá árinu 2001 til 2019 minnkaði kaupmáttur fólks á aldrinum 20-29 ára gagnvart húsnæðiskaupum um 46% skv. útreikningum BHM, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.