Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular viðvaranir á Suðurlandi og Suðausturlandi á morgun. Gular viðvaranir hafa verið gefnar út annars staðar á landinu. Vetrarfærð er um allt land, víða hvasst og lélegt skyggni.
Snjófjúk verður áfram í dag og takmarkað skyggni á fjallvegum Norðan- og Austan til. Lægir síðdegis en hvessir þá austanlands. Ört versnandi veður sunnanlands eftir miðjan dag á morgun. Austan stormur og hríðarbylur til að mynda á Hellisheiði. Mjög víða verður blint vegna skafrennings að sögn veðurfræðings hjá Vegagerðinni.
Hálka eða hálkublettir eru víða á Suðvesturlandi og skafrenningur. Þungfært er og skafrenningur milli Kjósar og Botns í Hvalfirði. Leiðindafæri er á Kjalarnesi, lélegt skyggni og hvassviðri. Hálkublettir eru á Suðurstrandarvegi.
Hálka, snjóþekja og jafnvel þæfingur á vegum og víða skafrenningur á Suðurlandi. Mjög hvasst er undir Eyjafjöllum og skyggni mjög slæmt.
Hálka, snjóþekja eða þæfingsfærð allvíða á Vestfjörðum, skafrenningur eða éljagangur. Á sunnanverðri Dynjandisheiði, í Pennusneiðingnum og þar fyrir neðan, er mjög grófur vegur sem getur verið hættulegur litlum bílum.
Hálka er á Holtavörðuheiði en stórhríð og mjög blint uppi á heiðinni. Hríð er í Húnavatnssýslum, slæmt skyggni en ekki mikil fyrirstaða á vegi. Hálka eða snjóþekja víða á vegum á Norðurlandi, skafrenningur og éljagangur en þó þæfingsfærð enn á nokkrum leiðum en unnið er að mokstri. Vegurinn um Þverárfjall er lokaður vegna veðurs.
Víða snjóþekja eða þæfingsfærð á Norðausturlandi og skafrenningur. Þungfært er á Hólasandi. Það er víða hálka eða hálkublettir, skafrenningur og éljagangur á Austurlandi.
Hreindýrahjarðir eru víða við veg og hafa m.a. sést á Fagradal, við álverið á Reyðarfirði, við Djúpavog og í Lóni. Hreindýrahjörð hefur einnig sést á Breiðamerkursandi og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát á þessum svæðum.
Á Suðurlandi tekur appelsínugul viðvörun gildi klukkan 16 á morgun og gildir til 23:00. „Austan 20-28 m/s með mjög snörpum vindhviðum við fjöll, hvassast austan til á svæðinu. Einnig má búast við snjókomu eða slyddu og skafrenningi með lélegu skyggni og hættulegum akstursskilyrðum. Ekkert ferðaveður.“
Á Suðausturlandi tekur appelsínugul viðvörun gildi klukkan 18 á morgun og gildir til miðnættis annað kvöld. „Austan og norðaustan 20-28 m/s með mjög snörpum vindhviðum við fjöll, hvassast vestan Öræfa. Einnig má búast við snjókomu eða slyddu og skafrenningi með lélegu skyggni og hættulegum akstursskilyrðum. Ekkert ferðaveður.“
Annars staðar á landinu hafa verið gefnar út gular viðvaranir.
Faxaflói - gul viðvörun tekur gildi klukkan 18 á morgun og gildir til klukkan 1 aðfararnótt sunnudags. „Austan og norðaustan 20-25 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll. Einnig má búast við snjókomu og skafrenningi með lélegu skyggni og varasömum akstursskilyrðum.“
Breiðafjörður gul viðvörun frá klukkan 19 annað kvöld þangað til klukkan 6 á sunnudagsmorgun. „Austan og norðaustan 20-25 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll. Einnig má búast við snjókomu og skafrenningi með lélegu skyggni og varasömum akstursskilyrðum.“
Vestfirðir þar hefur gul viðvörun verið í gildi síðan í gærkvöldi og gildir hún til klukkan 15. Ný viðvörun tekur gildi klukkan 19 annað kvöld og gildir til klukkan 9 á sunnudagsmorgun.„Norðaustan 20-25 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll. Einnig má búast við snjókomu og skafrenningi með lélegu skyggni og varasömum akstursskilyrðum.“
Strandir og Norðurland vestra - gul viðvörun er þar í gildi til hádegis í dag.
Á Norðurlandi eystra er gul viðvörun í gildi til klukkan 15 í dag.
Austurland að Glettingi – gul viðvörun í gildi til klukkan 15 í dag
Austfirðir – gul viðvörun tekur gildi klukkan 14 í dag og gildir til klukkan 23. „Norðvestan 15-23 m/s með staðbundnar vinhviður um og yfir 35 m/s, einkum sunnan til. Ökumenn aki varlega, einkum ef ökutækin verða óstöðug í hvössum vindum.“