Kynnti úrbætur vegna brunans á Bræðraborgarstíg

Þrír létust í brunanum við Bræðraborgarstíg.
Þrír létust í brunanum við Bræðraborgarstíg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun tillögur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) að úrbótum í brunavörnum í íbúðum og öðru húsnæði þar sem fólk hefur búsetu sem unnar voru í samráði við hagaðila. Hann fól HMS að koma með tillögur að úrbótum í málaflokknum vegna brunans á Bræðraborgarstíg í júní í fyrra, þar sem þrír létust. Þetta er tilkynnt á vef Stjórnarráðsins.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögheimilisskráningar endurskoðaðar

Tillögur HMS kveða meðal annars á um að íbúðarhúsnæði verði ekki tekið í notkun nema fari fram öryggisúttekt, fyrir eða samhliða lokaúttekt, og að skilgreindar verði sérstakar stöðuskoðanir byggingarfulltrúa og slökkviliðs vegna brunavarna í opinberu byggingaeftirliti.

Heimildir fjöldaskráningar lögheimilis í íbúðarhúsnæði verða endurskoðaðar ásamt því að skráningarskylda leigusamninga verður lögfest og mismunandi tegundir útleigu skilgreindar.

 „Það er sláandi að sjá hversu margir búa í óöruggu húsnæði á Íslandi og það er mikilvægt að við bætum yfirsýnina og skýrum regluverkið. Í kjölfarið á brunanum á Bræðraborgarstíg þá óskaði ég sérstaklega eftir því við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að þau ynnu heilstæðar tillögur sem hjálpuðu okkur að ná utan um þessi mál. Þær tillögur hef ég nú kynnt í ríkisstjórn og mun fylgja þeim fast á eftir og koma til framkvæmda á því þingi sem nú stendur yfir,” er haft eftir Ásmundi Einari í tilkynningu.

Tillögur HMS í heild sinni má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert