Hákon Hansson, dýralæknir á Breiðdalsvík, fékk nýverið afhentan Landstólpann, samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar.
Viðurkenningin var fyrst afhent árið 2011 og er veitt einstaklingi, fyrirtæki eða hópi, fyrir viðvarandi starf eða framtak sem vakið hefur jákvæða athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags.
Viðurkenningargripinn hannaði listakonan Kata Sümegi sem rekur listasmiðju á Borgarfirði eystri. Tilnefningar til Landstólpans bárust víðsvegar að af landinu, en alls voru 12 aðilar tilnefndir. Niðurstaða dómnefndar, sem í sitja starfsmenn Byggðastofnunar, varð sú að veita Hákoni Landstólpann í ár, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.