Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og sýknað sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu fyrir að synja umsókn Reykjavík Development ehf. um leyfi til reksturs Airbnb-íbúðargistingar í íbúð í eigu félagsins á grundvelli neikvæðrar umsagnar Reykjavíkurborgar.
Fram kom í umsögninni að starfsemin var ekki talin samræmast aðalskipulagi borgarinnar 2010-2030 eins og því var breytt árið 2017.
Reykjavík Development höfðaði mál á hendur sýslumanninum til ógildingar á ákvörðuninni.
Fram kemur í niðurstöðu Landsréttar að ekki lægi annað fyrir en að málsmeðferð sýslumannsins hefði samræmst lögum og vönduðum stjórnsýsluháttum og að umsögn Reykjavíkurborgar hefði tekið mið af gildandi skipulagsákvæðum á þeim tíma sem umsögnin var veitt.
Áfrýjandanum Reykjavík Developments var gert að greiða sýslumanninum 800 þúsund krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.