„Segðu frá“ hleypt af stokkunum

Algengast er að aldraðir eru beittir andlegu ofbeldi.
Algengast er að aldraðir eru beittir andlegu ofbeldi. Ljósmynd/Aðsend

Algengast er að aldraðir séu beittir andlegu ofbeldi og þar á eftir kemur fjárhagsleg- og efnisleg misnotkun, þá vanræksla, líkamlegt ofbeldi og loks kynferðislegt ofbeldi. Þetta eru niðurstöður skýrslu greiningadeildar ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn öldruðum á Íslandi. 

Í skýrslunni, sem kom út nýlega, er farið yfir ýmsar rannsóknir sem gerðar hafa verið á ofbeldi gegn öldruðu fólki, bæði hér á landi og erlendis.

Niðurstöður hennar gefa til kynna að ofbeldi gegn öldruðum er alþjóðlegt vandamál sem að miklu leyti er falið, sjaldan tilkynnt og einkenni þess ekki nægilega vel þekkt.

 Efna til átaksins „Segðu frá“

Neyðarlínan hefur, á grundvelli þess er kemur fram í skýrslunni, efnt til átaks og vitundavakningar sem ber yfirskriftina „Segðu frá“

Verkefnið er unnið í samstarfi við Félag eldri borgara, Soroptimista, Zonta á Íslandi og Oddfellow.

Fram kemur í skýrslunni að aldrað fólk er síður líklegt til að tilkynna um ofbeldi sem það verður fyrir og skilgreinir það stundum á annan hátt en yngra fólk.

„Þetta gerir það að verkum að mjög erfitt er að meta hvert umfang vandans er. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur gefið út að tæp 16% fólks sem er 60 ára og eldra verði fyrir ofbeldi af einhverju tagi á heimilum sínum eða á dvalar- og hjúkrunarstofnunum. Jafnframt áætlar stofnunin að talan sé mun hærri þar sem aldrei er tilkynnt um fjölda brota,“ segir í tilkynningu Neyðarlínunnar.

„Fyrsta skrefið til að takast á við þennan vanda er að hvetja þolendur til að stíga fram og tilkynna um ofbeldið því það er aldrei of seint að leita sér aðstoðar,“ segir sömuleiðis í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert