Neyðarlínan sendir nú sms tilkynningu sem berast á í síma á afmörkuðu svæði í kringum gosstaðinn í Geldingadölum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum í dag.
Þá segir að möguleiki sé á, eins og hefur gerst áður, að sms skilaboðin rati víðar en nákvæmlega í kring um eldgosið og svæðið þar í kring. „Ef það verður raunin í þetta sinn þá minnum við á að skilaboðin eru ætluð þeim sem eru að heimsækja eldstöðvarnar,“ segir í tilkynningu almannavarna.
Í samtali við mbl.is segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, að settur hafi verið upp fjarskiptabúnaður á Langahrygg í gær til þess að koma á símasambandi til bráðabirgða á gossvæðinu í Geldingadölum. Ekkert símasamband var fyrir á svæðinu en símasamband er mikilvægt til að tryggja öryggi almennings á svæðinu.
Með sms-sendingum til fólks sem freistar þess að berja eldgosið augum er það minnt á sóttvarnir á tímum þar sem Covid-19 faraldurinn er á uppleið í samfélaginu. Þá er á það minnt að fólk í sóttkví, hvort sem að er búsett á Íslandi eður ei, eigi ekki að fara í göngu að gossvæðinu.
„Fólk í sóttkví á ekki að fara í gönguferð að gosstað þar sem sú ferð er mun lengri en gönguferð í nágrenni sóttkvíarstaðar. Þetta á við alla í sóttkví, bæði ferðafólk og fólk búsett hér á landi,“ segir í tilkynningu almannavarna.