Spurði um aðrar leiðir en „Evrópusambandsklúðrið“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Ég hef heyrt ráðherra lýsa áhuga á Spútnik-bóluefninu áður, en hvað er raunverulega að gerast í þeim málum?“ spurði Sigundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í umræðum um hertar sóttvarnaaðgerðir á Alþingi.

Sigmundur sagði að aðgerðirnar hefðu ekki verið nauðsynlegar ef fleiri væru bólusettir, eins og raunin ætti að vera.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafði sagt fyrr í umræðunni að það væri til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu hvort unnt væri að fá bóluefnið Spútnik til landsins. Viðræður við framleiðenda sagði hún á byrjunarstigi.

Sigmundur sagði miðað við fyrri yfirlýsingar bendi ekki til annars en að beðið sé eftir að heyra frá Evrópusambandinu um hvenær Spútnik komi hugsanlega inn í Evrópupakkann.

„Er verið að reyna að semja um kaup á þessu Spútnik-efni eða öðru efni fyrir alla þjóðina utan við Evrópusambandsklúðrið?“

Vill fá lánað ónotað bóluefni frá öðrum löndum

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvort heilbrigðisyfirvöld hefðu leitað til þeirra landa sem nú þegar hafi lýst yfir að þau ætli ekki að nota það bóluefni sem þau þegar hafa og liggja á lager.

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tek sem dæmi Danmörku sem hefur tilkynnt að ætlunin sé að fresta notkun AstraZeneca bóluefnisins í þrjár vikur. Mér finnst ekki boðlegt að ríkið liggi á bóluefni með þessum hætti í margar vikur. Ég kalla eftir því að Ísland óski eftir því að fá þótt ekki væri nema lánað þetta bóluefni í þennan tíma og endurgreiði það síðar þegar Ísland fær sína skammta. Þetta á við um fleiri lönd. Á Ítalíu berast fréttir af því að árás hafi verið gerð á vöruskemmur þar sem lágu hátt á fjórða milljón skammtar af bóluefni og búið að liggja þar í einhvern tíma. Hvað er heilbrigðisráðherra að gera í þessum efnum?“ spurði Sigríður.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði ekki koma til álita að „seilast í“ bóluefni sem eru á bið hjá nágrannaþjóðum okkar.

Erum með nóg af AstraZeneca til að halda plani

„Við höfum tekið þá stefnu hér að nýta AstraZeneca, hefja nýtingu á því núna fyrir 70 ára og eldri og síðan áfram með yngra en 70 ára, enda hefur ábending Evrópusambandsins verið um að það sé óhætt að nota það fyrir 65 ár og eldri og við munum gera það. Við erum með nóg af AstraZeneca í húsi til að halda okkar plani hvað varðar þennan hóp og við getum gert ráð fyrir því að 70 ára og eldri hafi fengið bóluefni viku eftir páska,“ sagði Svandís.

Sigríður varð fyrir miklum vonbrigðum með svar Svandísar varðandi möguleikann á að nýta bóluefni sem situr ónotað á lagar í öðrum löndum. 

„Að sjálfsögðu skiptum við okkur ekki af því hvað þau ákveða í sínum efnum þegar kemur að bóluefnum. En það að óska eftir því að þau láti af hendi þetta bóluefni, eins og ég segi, þótt ekki væri nema til láns í einhvern tíma, finnast mér sjálfsögð viðbrögð annarra landa við þeim fréttum sem berast af því að bóluefni liggi ónotað, til dæmis á Spáni, mörg hundruð þúsund skammtar, og í ýmsum Evrópulöndum líka. Ég held að þessum löndum væri bara þægð í því ef Ísland kæmi og sýndi nú hvernig á að framkvæma þessar bólusetningar sem ganga reglulega vel hérna á Íslandi. Ég brýni hæstvirtan ráðherra í því að endurskoða afstöðu sína til þessara möguleika.“

Sigríður sagði enn fremur að gott væri að fá nánari svör við því með hvaða hætti okkur hafi mögulega staðið til boða í gegnum þau samskipti sem átt hafa sér stað frá framleiðendum utan Evrópusambandsins, hvort menn haldi þeim þráðum ekki vel í sambandi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Arnþór

Svandís sagðist getað fullvissað Sigríði um að öllum þráðum væri haldið opnum.

„Vegna þess að hæstvirtur þingmaður beinir sjónum sínum sérstaklega að efni AstraZeneca, sem er víða á bið, þá er það þannig að við myndum í ljósi stöðunnar og endurmats á því bóluefni ekki nota AstraZeneca fyrir alla aldurshópa. Það er bara vísindaleg niðurstaða. Þannig að þó að við fengjum það að láni myndi það engu breyta fyrir okkar áætlanir. 70 ára og eldri klárast eftir páska og síðan getum við haldið áfram bólusetningu niður í 65 ára með því efni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert