Þrír bílar lentu í árekstri á Vesturlandsvegi við brúna yfir Leirvogsá í Mosfellsbæ í morgun. Blindhríð var á staðnum og bílarnir keyrðu hver aftan á annan.
Þrír sjúkrabílar fóru á vettvang en enginn var að lokum fluttur á sjúkrahús samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Slökkviliðsbíll fór einnig á staðinn en ekki þurfti að nota hann. Veginum var lokað á milli Þingvallavegar og Esjumela.