Um 200 manns eru komnir í úrvinnslusóttkví eftir að smit greindist hjá nemanda á unglingastigi í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Allir 180 nemendur 8.-10. bekkjar eru í sóttkví á meðan beðið er eftir frekari fyrirmælum frá smitrakningarteymi almannavarna.
Nemandinn sem greindist með Covid-19 var í skólanum á þriðjudaginn en var kominn í sóttkví á miðvikudaginn, þannig að vinnan beinist að því að kanna hverjir hafi verið berskjaldaðir fyrir smiti á þriðjudaginn, að sögn Valdimars Víðissonar skólastjóra.
„Þetta kemur ekki á óvart heldur áttum við alveg von á því að þetta gæti orðið raunin miðað við þær upplýsingar sem við fengum fyrr í vikunni. Stofnunin hefur tekist á við þetta af ákveðinni yfirvegun og festu og unnið þetta faglega að mínu mati,“ segir Valdimar í samtali við mbl.is.
Þetta er í þriðja sinn sem smit greinast innan veggja skólans frá því faraldurinn hófst en aldrei hafa eins margir farið í sóttkví og nú þegar þriðjungur nemenda hefur þurft að sæta því úrræði. Valdimar vonast til þess að henni verði aflétt hjá mörgum eftir að rakningarteymið hefur unnið úr málinu.
Þessar ráðstafanir hafa ekki afgerandi áhrif á skólastarfið enda allir þegar heima vegna hertra sóttvarnaráðstafana sem tóku gildi í gær. Breska afbrigðið hefur skotið sér niður í nokkrum skólum á höfuðborgarsvæðinu og aukin smithætta af því er á meðal ástæða sóttvarnayfirvalda fyrir þeim ströngu takmörkunum sem nú gilda.