Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, segir aðkomuna í Ólafsfjarðargöngum, þar sem heimagerð sprengja var sprengd fyrir rúmri viku, hafa verið „eins og eftir loftárás“.
Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur handtekið fjóra í tengslum við rannsókn málsins.
„Þetta var sprengja sem var sett undir gám þar sem rafmagnstengingar og -stýringar eru hýstar,“ segir Ámundi við blaðamann mbl.is, en ljóslaust var í göngunum í kjölfar sprengingarinnar.
„Gámurinn er með timburgólfi, svo þetta var eins og eftir loftárás þarna inni.“
Ámundi hefur lengi vakið athygli á eldhættu í göngunum, en þau eru klædd afar eldfimu efni sem hann segir nauðsynlegt að sprauta yfir með steypu, en ekki skilja eftir bert.
„Á sínum tíma voru forverar mínir í starfi, bæði á Ólafsfirði og Dalvík, að berjast við Vegagerðina um að setja ekki þetta efni inn í göngin nema ef sprautað væri yfir það með steypu. En það var aldrei gert,“ segir hann.
Þá hafi Norðmenn verið búnir að banna efnið í sínum jarðgöngum á þeim tíma sem Ólafsfjarðargöng voru byggð, nema það væri sprautusteypt.
Hann segir að ef mikill eldur kæmist í klæðninguna, svo sem vegna sprengingar, gætu göngin logað enda á milli.
„Þau eru einbreið svo stór eldsvoði gæti steindrepið allt að 150 manns,“ segir Ámundi.
„Svo þessi göng eru ekkert annað en dauðagildra.“
Ámundi vonar að sprengingin í göngunum endurveki umræðuna um eldhættu og drífi ráðamenn til úrbóta á þeim.
Hann segir Samgöngustofu hafa beint því til Vegagerðarinnar í september að gefin yrði út tímasett áætlun um það hvenær gengið yrði í það verkefni að betrumbæta göngin, þar sem þau væru „óforsvaranleg“ í núverandi mynd.
„En það hefur ekkert verið bætt enn þá, ekki nokkur skapaður hlutur. Þeir halda ábyggilega að það sé best að þegja, því þá eru þeir eru ekki hankaðir á neinu.“
Aðspurður segir Ámundi líklegt að hár kostnaður standi í vegi fyrir því að steypt verði.
„Það er heljarinnar verkefni að sprautusteypa yfir öll göngin. En það er ekki endalaust hægt að bíða eftir því að það verði stórslys,“ segir hann.
„Ég er ansi hræddur um að við þurfum að ná í fjöldann allan af líkum inn í göngin ef allt fer á versta veg. Það er því miður bara tímaspursmál hvenær það gerist, en maður vonar að það verði seint.“