„Alveg klikkað veður á gossvæðinu“

Það hefur verið nóg að gera hjá viðbragðsaðilum við gossvæðið …
Það hefur verið nóg að gera hjá viðbragðsaðilum við gossvæðið og hafa þeir þurft að sinna hinum ýmsu verkefnum. Ljósmynd/Björgunarsveitin Þorbjörn

„Nú höfum við unnið óslitið í heila viku og þreytan farin að gera vart við sig í okkar herbúðum. Sem betur fer standa félagar okkar úr öðrum sveitum vaktina með okkur, sem er algjörlega ómetanlegt.“

Þetta kemur fram í facebookfærslu björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík sem staðið hefur í stórræðum síðan gosið í Geldingadölum hófst.

„Í dag er alveg klikkað veður á gossvæðinu þannig að því hefur verið lokað, það gefur okkar fólki smá svigrúm til þess að slaka á og hvíla sig. Í gær fórum við í böruburð og sjúkraflutning upp á gossvæði ásamt því að setja niður fleiri skilti og stikur á gönguleiðum. Þá fórum við einnig og löguðum staura og stög á gönguleið A,“ segir einnig í færslunni.

Landhelgisgæslan aðstoðaði björgunarsveitina með því að ferja um 200 kg af stikum, staurum og spottum upp á Fagradalsfjall með þyrlu.

Á morgun stendur til að nota blíðuna, sem spáð er, til að setja upp kaðal efst á gönguleið B.

„Þrátt fyrir mikið álag síðustu daga er mannskapurinn okkar nokkuð hress og álagið dreifist á um 35 félaga sveitarinnar. Tækin okkar eru þó í stanslausri notkun og er verulega farið að sjá á búnaði,“ segir jafnframt í færslunni.

Hægt er að styrkja björgunarsveitina Þorbjörn með því að leggja inn á reikning 0143-26-8665 kt. 5912830229.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert