Einhver beygla í okkur öllum

Lilja Nótt Þórarinsdóttir leikkona.
Lilja Nótt Þórarinsdóttir leikkona. Eggert Jóhannesson

Nýr íslenskur framhaldsþáttur, Systrabönd, kemur í heild inn í Sjónvarp Símans Premium á miðvikudag. Lilja Nótt Þórarinsdóttir, sem leikur eitt af aðalhlutverkunum, hefur tröllatrú á þættinum.

Glæpur er miðlægur í Systraböndum, nýjum íslenskum framhaldsþætti, en eigi að síður er ekki um ráðgátu að ræða. Enginn sem séð hefur stikluna vegna þáttarins þarf að velkjast í vafa – þrjár vinkonur um fertugt frömdu glæpinn þegar þær voru fimmtán ára. Réðu jafnöldru sinni bana í litlu þorpi úti á landi og hafa haldið því leyndu í aldarfjórðung. En svo finnast jarðneskar leifar hinnar látnu og uppgjörið verður ekki umflúið.

„Þetta er svolítið óvenjulegt,“ viðurkennir Lilja Nótt Þórarinsdóttir, sem leikur eina af vinkonunum, „oft má ekki segja neitt fyrirfram, sérstaklega þegar um glæpaþætti er að ræða, en núna getur maður sagt ýmislegt. Systrabönd er ekki svona klassískur „nordic noir“-þáttur, þar sem áhorfandinn fær ekkert að vita í upphafi, heldur liggur strax fyrir að þrjár vinkonur hafa lifað með ógeðslegu og tærandi leyndarmáli í 25 ár og þegar líkið finnst þurfa þær að horfast í augu við gjörðir sínar.“

Þar sem við erum vel upplýst í upphafi segir Lilja Nótt nær að tala um spennudrama en spennutrylli þegar Systrabönd eru annars vegar. „Mín trú er sú að áhorfendur komi til með að fjárfesta tilfinningalega meira í þessum karakterum en í dæmigerðari glæpaþáttum þar sem mesta púðrið fer í að ráða gátuna,“ segir hún.

Lífið fljótt að breytast

Systrabönd er í sex hlutum sem koma í heild sinni inn í Sjónvarp Símans Premium á miðvikudaginn kemur. Fyrsti þátturinn verður svo sýndur í línulegri dagskrá í Sjónvarpi Símans á páskadag. Hver þáttur er um klukkustund að lengd.

Lilja Nótt segir vinkonurnar hafa unnið með ólíkum hætti úr þessari erfiðu lífsreynslu. „Um það snýst sagan. Lífið getur verið svo fljótt að breytast og stundum erum við bara einu unglingafylleríi frá því að rústa því. Hvað gerum við þá? Vinkonurnar sammælast um að varðveita þetta hræðilega leyndarmál og segja engum frá. Það hefur að sjálfsögðu sínar afleiðingar en leyndarmálið gerir hvort tveggja í senn, sameinar þær og sundrar þeim. Þær eru fastar í vítahring. Minnið, það magnaða fyrirbæri, spilar líka stórt hlutverk en vinkonurnar muna atburðinn ekki allar eins eftir allan þennan tíma.“

Vinkonurnar eru ólíkar innbyrðis og Lilja Nótt segir aðstæður að öllum líkindum hafa fært þær saman. „Þær koma úr litlu þorpi þar sem erfiðara er að velja sér vini. Það er alls ekki víst að þær hefðu verið vinkonur í Hagaskóla. Þær hafa allar átt erfitt, hver á sinn hátt, og eru fyrir vikið með sinn bakpoka í lífinu. En á það svo sem ekki við um okkur öll? Er ekki einhver beygla í okkur öllum? Svo var samfélagið miklu lokaðra fyrir 25 árum en það er í dag, ekki síst í litlum þorpum.“

Lilja Nótt í hlutverki sínu í Systraböndum.
Lilja Nótt í hlutverki sínu í Systraböndum. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir


Á misjöfnum stað í lífinu

Brestir hafa komið í vináttu af minna tilefni en vinkonurnar þurfa eigi að síður að gæta vel hver að annarri, svo ekkert leki út. Þær eru á ákaflega misjöfnum stað í lífinu. Ein er prestur, önnur matreiðslumeistari og sú þriðja sjúkraliði. Sú síðastnefnda hefur verið í klóm fíkniefna en er edrú þegar okkur ber að garði. Að vonum þarf þó að passa sérstaklega vel upp á hana.

Lilja Nótt leikur prestinn sem vegnað hefur vel í lífinu – alltént út á við. Hún á lítið barn þegar við hittum hana og fyrir vikið er meira í húfi fyrir hana en hinar vinkonurnar. Hún hefur mögulega mestu að tapa.

Matreiðslumeistarinn hefur farið aðra leið – sökkt sér í vinnu og sett alla aðra fram fyrir sig. Þannig tekst henni að ýta leyndarmálinu á undan sér.

Lilja Nótt kveðst hafa notið hvers dags við gerð Systrabanda. „Fyrir það fyrsta er handritið ógeðslega spennandi og í annan stað er hópurinn sem kom að þessu verkefni í einu orði sagt æðislegur.“

Hugmyndin er runnin undan rifjum Jóhanns Ævars Grímssonar sem fékk Björgu Magnúsdóttur, Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur og Silju Hauksdóttur til liðs við sig við handritsgerðina. Silja sér jafnframt um leikstjórnina og Jóhanna leikur eitt aðalhlutverkanna. Lilja Nótt og Ilmur Kristjánsdóttir, sem leikur þriðju vinkonuna, komu svo að þróun karakteranna á lokametrunum.

„Það var frábært að koma inn undir lokin og fá þannig að hafa áhrif og atkvæðisrétt við borðið og taka sjálf þátt í að gefa mínum karakter aukna dýpt. Það er ekki oft sem maður fær það vald. Þetta gaf okkur Silju, Jósu og Ilmi líka dýrmætt tækifæri til að vinna fjórar saman áður en farið var í tökur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur skilað sér.“

– Finnst þér þú þá eiga meira í verkefninu en ella?

„Já, alveg tvímælalaust. Ég hef verið mjög heppin með hlutverk á mínum ferli en þetta á alveg sérstakan stað í hjartanu. Ég var að upplifa eitthvað alveg nýtt og sérstakt.“

Nánar er rætt við Lilju Nótt um Systrabönd í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert