Kuldahretið sem nú gengur yfir landið kann að vera orsök þess að farfuglar koma nú seinna að landinu en að jafnaði gerist. Þetta segir Brynjúlfur Brynjólfsson, fuglaáhugamaður á Höfn í Hornafirði.
Hann fylgist vel með náttúru landsins og færir fyrirbæri hennar til bókar. Segir algengt að fuglar frá fjarlægum löndum flykkist að Íslandsströndum í síðustu viku mars; áður hafi þeir í nokkrum mæli verið komnir áður en minna nú. Aðalfartíminn er í apríl og fram í maí.
„Ég læt mér detta í hug að fuglarnir hafi greint að óveður væri í aðsigi,“ segir Brynjúlfur sem lýsir því að eystra hafi að undanförnu sést álftir, gæsir, brandendur, rauðhöfðaendur, skúmar, tjaldar og stelkar; en bara mun færri fuglar en að jafnaði gerist á þessum tíma. „Ég fór í Lón fyrir nokkrum dögum og taldi þar 630 álftir. Á sama tíma í fyrra voru þær um 2.500,“ segir Brynjúlfur í umfjöllun um fuglakomur í Morgunblaðinu í dag.
Heiðlóan er í margra vitund hinn eini sanni vorboði á Íslandi. Venjulega fara lóurnar að koma til landsins viku af apríl, hvað sem verður nú. „Ég taldi mig hafa heyrt í lóu í Lóninu fyrir nokkrum dögum og kunningi minn sem var þar líka hafði þetta sama á orði. En eitt er að heyra og annað að sjá, þetta er allt óstaðfest og dirrindíið eitt dugar ekki,“ segir Brynjúlfur. sbs@mbl.is