Í mikilli ókyrrð og neyðarástand vegna eldsneytis

Íslensk og bresk yfirvöld komu að rannsókn atviksins.
Íslensk og bresk yfirvöld komu að rannsókn atviksins. mbl.is/Árni Sæberg

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur gefið út lokaskýrslu um rannsókn á alvarlegu flugatviki í aðflugi Boeing 757-200-farþegaþotu Icelandair að flugvellinum í Manchester á Englandi, sem átti sér stað í febrúar árið 2017.

Flugáhöfn vélarinnar lýsti yfir neyðarástandi vegna eldsneytis sem var orðið af skornum skammti, vonskuveður var og mikil ókyrrð í lofti og þurfti vélin tvisvar frá að hverfa, fyrst frá flugvellinum í Manchester og því næst flugvellinum í Liverpool áður en lending tókst án vandræða í þriðju tilraun í Manchester eftir að vélin var sett í forgang.

168 farþegar um borð

168 farþegar og sex manna áhöfn voru um borð í vélinni. Flugvélin var á leið frá Keflavík til Manchester að morgni 23. febrúar 2017. Fram kemur í rannsóknarskýrslunni að flugstjórinn óskaði eftir því við undirbúning flugsins að einu tonni yrði bætt við eldsneyti vélarinnar þar sem veðurupplýsingar sýndu að búast mætti við hvössum vindhviðum í Manchester. Í skýrslunni kemur hins vegar fram að gefnar höfðu verið út þrjár veðurviðvaranir (SIGMET) fyrir flug þennan morgun á Englandi sem flugmennirnir höfðu ekki upplýsingar um. Var flugvöllurinn í Liverpool áætlaður varaflugvöllur fyrir flugið.

Þegar þotan hóf aðflug um klukkan hálfellefu að flugvellinum í Manchester var of mikið hvassviðri til að unnt væri að lenda og hringsólaði hún um tíma í biðflugi þar til stefnan var tekin á Liverpool en þar var enn meiri ókyrrð í lofti og þurfti vélin enn á ný að fara í fráflug. Voru þá kannaðir möguleikar á lendingu á öðrum flugvöllum og var stefnan tekin á Leeds. Klukkan 11:13 tilkynnti flugstjórinn að eldsneytisstaðan væri orðin svo lág að hann þyrfti að lenda en þá voru 3,4 tonn af eldsneyti eftir á vélinni. Mínútu síðar lýsti flugstjórinn yfir neyðarástandi vegna eldsneytis og var vélinni á ný beint til Manchester þar sem henni var lent heilu og höldnu klukkan 11.27. Liðu 36 mínútur frá því að vélin hóf fyrsta fráflugið frá Manchester og þar til hún lenti. Voru þá 2,7 tonn eftir af eldsneyti í tönkum vélarinnar eða til 20 mínútna flugs, áður en gengið er á síðustu varabirgðir eldsneytis sem eiga að duga í 30 mínútur, og aðeins 986 kíló umfram neyðareldsneyti vélarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert