Jafnt flæði heitustu kviku

Eldgosið í Geldingadölum á Reykjanesi.
Eldgosið í Geldingadölum á Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Kvikan sem kom upp í byrjun var 1.220-1.240°C heit. Við höfum aldrei áður séð jafn heitt efni koma upp í eldgosum á Íslandi,“ sagði Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands um eldgosið í Geldingadölum. Hann sagði að stöðugt og jafnt flæði kviku í eldgosinu kæmi mest á óvart.

„Gosið hefur haldið áfram meira og minna á sama róli frá því það hófst. Kvikan er mjög heit og hún er farin að bræða innan úr gosrásinni. Þá kemst upp meiri kvika en þetta veldur því líka að gosrásin verður stöðugri. Það er engin spenna í jarðskorpunni sem ýtir á að loka henni,“ sagði Ármann. Hann telur að héðan af þurfi að verða einhver breyting efst í jarðskorpunni, t.d. vegna jarðskjálfta, til að loka gosrásinni. Áætlað er að hún sé 1-2 metrar í þvermál efst en víkki eftir því sem neðar dregur, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra hefur ákveðið að framkvæmdasjóður ferðamála leggi allt að tíu milljónir í að bæta aðgengi fyrir þá sem vilja skoða jarðeldana á Reykjanesi. Grindavíkurbær fær styrkinn og mun halda utan um framkvæmdirnar. Búið er að stika gönguleið en einnig á að setja upp salernisaðstöðu, bílastæði, skilti og merkingar og ganga frá slóðum utan Suðurstrandarvegar.

FETAR, landssamtök fyrirtækja sem eru í ferðaþjónustu allt árið jafnt á hálendi og láglendi, eru reiðubúin til að sinna farþegaflutningum að og frá Geldingadölum á sérútbúnum bílum og með reyndum ökumönnum. FETAR hefur óskað eftir samtali við skipulagsyfirvöld, landeigendur og ferðaþjónustuna á Reykjanesi um slíka þjónustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert