Með versta veðri sem sést hefur í vetur

Veðurviðvaranir eru nú í gildi víðs vegar um land.
Veðurviðvaranir eru nú í gildi víðs vegar um land. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta veður er með því verra sem við höfum séð í vetur,“ segir veðurfræðingur Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Appelsínugul viðvörun er í gildi fram eftir kvöldi á Suður- og Suðausturlandi, Vestfjörðum, og í Faxaflóa og Breiðafirði. Þá er gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu, Austfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og miðhálendi.

En hvar er veðrið verst?

„Ætli það sé ekki verst við suðurströndina hvað varðar vind, en það er líka mjög slæmt á Vestfjörðum og í Breiðafirði út af skyggni,“ segir veðurfræðingur. 

„Við vissum að það væri 50 cm lausamjöll í fjöllum á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra í dag, svo það er viðbúið að þar verði mikið kóf.“

Skörp skil á höfuðborgarsvæðinu

Veðurfræðingurinn segir veðrið á höfuðborgarsvæðinu ganga yfir til norðurs fram eftir kvöldi, en skilin séu býsna skörp.

„Það lægir því ekkert fyrr en vindáttin snýst í suður, og hún gerir það á milli eitt og tvö í nótt.“

Þá eru það eindregin tilmæli Veðurstofu að fólk heimsæki ekki gosstöðvarnar í Geldingadölum fyrr en í fyrsta lagi í birtingu á morgun.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert