Mörg þúsund manns í Geldingadölum

Mörg þúsund manns eru í Geldingadölum að skoða eldgosið.
Mörg þúsund manns eru í Geldingadölum að skoða eldgosið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Litla örtröðin,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, aðspurður hver staðan sé á gossvæðinu í Geldingadölum.

„Ég myndi skjóta á að þetta væru um tíu þúsund manns,“ bætir Bogi við. Hann segist hafa keyrt um göturnar í kringum gossvæðið, halda að hann væri að mæta bílum en það voru allt ennisljós. 

Bogi segir bílafjöldann benda til þess að fjöldinn sé á þessu bili. Allur Suðurstrandarvegurinn sé undir og túnið fyrir neðan nærri gönguleiðinni. 

Hann segir veðrið ágætt og nokkur minniháttar slys hafi orðið en annars gengið vel.

„Þetta er enginn smá fjöldi sem er þarna. Bílalengjan nær frá námunum alveg út að Ísólfsskála, allir vegir inn á milli úttroðnir. Lagt öðrum megin á veginum alla leið.“

Hann segir hægt að reikna gróflega að umferðarteljari hjá Vegagerðinni hafi talið 5.400 bíla á Grindarvíkurvegi, sem telur fram og til baka. Þannig að helminga megi þá tölu í 2.700. Hann gerir ráð fyrir þremur að meðaltali í bíl sem gera 8.100 manns. Þá eru ótaldir allir bílar frá Suðurstrandarvegi og bílar Grindvíkinga sjálfa. 

„Það er fólk úti um allt,“ segir Bogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert