Stóðu við ferminguna – keyra veisluna heim

Fjölskyldan í Þorrasölum á fermingardegi Emmu.
Fjölskyldan í Þorrasölum á fermingardegi Emmu. Mbl.is/Íris

„Þetta var bara svolítið erfitt, þessar fréttir, þremur dögum fyrir veislu. Sérstaklega þar sem Emma er búin að vera að skipuleggja þetta sjálf rosalega mikið og hefur mikinn áhuga á þessu, sérstaklega bakstrinum á fermingarkökunni,“ segir Ragnheiður Þorkelsdóttir, móðir Emmu Óskarsdóttur sem fermdist í dag.

Hún segir að Emma hafi verið að skipuleggja hvernig köku hún ætlaði að baka fyrir ferminguna sína í marga mánuði. 

Töflufundur með fjölskyldunni

„Við veltum þessu mikið fyrir okkur þegar fréttirnar komu, hvað við ættum að gera. Kirkja gaf fljótlega út að hægt væri að halda fermingardögunum og taka bara minni athafnir. Svo það fermdust fjögur börn í hverri athöfn.“

Veitingarnar voru afhentar í skreyttum pokum með upplýsingum um innihald.
Veitingarnar voru afhentar í skreyttum pokum með upplýsingum um innihald. Mbl.is/Íris

Ragnheiður segir að Emma hafi verið staðráðin í að þiggja það boð í stað þess að fresta stóra deginum. Þá hafi stóri hausverkurinn verið hvað ætti að gera í sambandi við veisluna. 

„Við eiginlega tókum bara töflufund fjölskyldan. Svolítið að vega og meta kosti og galla. Við vorum með fullan frysti, búin að baka fullt, og búin að panta veitingar – við hugsuðum líka til þjónustuaðilanna sem við vorum nýbúin að panta frá. Þannig að niðurstaðan varð að bretta upp ermar og senda fólki veisluna.“

Fermingarservíettur og heillakort pökkuð saman til útkeyrslu.
Fermingarservíettur og heillakort pökkuð saman til útkeyrslu. Mbl.is/Íris

Hún segir verkefnið bara hafa breyst með þeirri ákvörðun, leita að umbúðum til að pakka. Emma sjálf ætlaði að baka stóra þriggja hæða fermingartertu en bakaði í staðinn þrettán litlar tertur.

Veislunni var keyrt út á milli klukkan fjögur og sex. Búið var að prenta servíettur og heillakort sem fylgdu með veitingunum. 

Emma bakaði sjálf þrettán litlar fermingatertur.
Emma bakaði sjálf þrettán litlar fermingatertur. Mbl.is/Íris

Emma sjálf segist vera ánægð með hugmyndina. Hún átti sjálf hluta af hugmyndum fyrir útfærslu veislunnar og tók sjálf ákvörðun um að skipta yfir í margar litlar kökur þar sem henni þótti ekki nógu smekklegt að senda köku í sneiðum.

Fyrir Emmu var bakstur fermingartertunnar mikið atriði, enda mikil áhugakona um bakstur og hefur verið frá því hún var mjög lítil. Margar tilraunir á uppskriftum fyrir fermingartertu voru gerðar en Emma segir ekkert mál hafa verið á endanum að velja rétta uppskrift.

Meira að segja nammið sem átti að vera í veislunni …
Meira að segja nammið sem átti að vera í veislunni var keyrt út. Mbl.is/Íris
Emma valdi vanilluköku með hindberja- og vanillukremi til að bjóða …
Emma valdi vanilluköku með hindberja- og vanillukremi til að bjóða upp á á fermingadeginum. Mbl.is/Íris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert