Vinnustofan brunnin til kaldra kola

Bergþór á vinnustofunni sinni, sem núna er brunnin til kaldra …
Bergþór á vinnustofunni sinni, sem núna er brunnin til kaldra kola. Ljósmynd/Aðsend

Vinnustofa myndlistarmannsins Bergþórs Morthens er brunnin til kaldra kola eftir að eldur kom upp í stóru vöruhúsnæði í Gautaborg í Svíþjóð í nótt.

Bergþór segist hafa fengið hringingu klukkan sex í morgun að íslenskum tíma um að allt væri orðið alelda en enginn slasaðist í eldinum.

Enn logar eldurinn og mikinn reyk leggur frá byggingunni. Núna snýst allt um að koma í veg fyrir að eldurinn berist í nærliggjandi hús, að sögn viðbragðsaðila.

„Mikið áfall“

„Þetta er stórt högg og mikið áfall,“ segir Bergþór, sem hefur verið með vinnustofuna frá árinu 2016 en hann útskrifaðist úr meistaranámi í Svíþjóð árið áður.

„Ég var með helling af verkum. Ég var nýbúinn að halda sýningu í Gautaborg en sem betur fer var búið að senda flest af verkunum af þeirri sýningu í burtu en það var eitthvað komið aftur,“ segir hann.

Einnig hafði hann nýfengið til sín verk aftur frá sýningu í Malmö en þau eru væntanlega fuðruð upp. Sömuleiðis voru þarna verk sem áttu að fara á sýningu hjá Listasafninu á Akureyri í sumar. Spurður út í fjölda verka í vinnustofunni telur hann að um 20 hafi verið fullkláruð og um 10 til 15 í vinnslu.

Fleiri listamenn hafa verið með aðstöðu í byggingunni, þar á meðal tveir félagar hans, og þeir eru líka búnir að tapa öllu sínu.

Kaldhæðnislegt

Alls konar starfsemi hefur verið í húsnæðinu. Í öðrum endanum hefur verið málningarvöruverslun en mesta eldhættan stafar af fyrirtæki sem vinnur við að búa til tjöru þar sem notast var við mörg eldfim efni. „Mér skilst að það hafi bara sprungið í loft upp,“ greinir Bergþór frá og segist þakka fyrir að enginn hafi slasast.

Hann er staddur á Íslandi en ætlar að fljúga til Gautaborgar á morgun til að kíkja á aðstæður. „Það er kaldhæðnislegt að ég var við eldstöðvarnar í gær og svo vaknar maður við þetta,“ segir hann, grautfúll yfir stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert