Verkefnið Betri borg fyrir börn var hleypt af stokkunum fyrir rúmu ári og var hugsað sem tveggja ára tilraunaverkefni sem síðan væri hægt að halda áfram með ef vel til tækist.
„Tilgangurinn er að allir sem koma að börnum í Breiðholti vinni saman í þágu barna og fjölskyldna,“ segir Sigurlaug, fagstjóri grunnskólahluta skóla- og frístundadeildar Breiðholts.
„Ég talaði um það þegar Ásmundur Einar Daðason fór af stað með farsældarfrumvarpið að við séum undanfarar. Við erum að undirbúa jarðveginn fyrir farsældarfrumvarpið, þótt þetta verkefni sé gert að frumkvæði Reykjavíkurborgar; velferðarráðs og skóla- og frístundaráðs,“ segir Óskar en þess má geta að meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
„Sigurlaug er nú yfirmaður grunnskólaskólastjóra hér í hverfinu. Áður var yfirmaðurinn niðri á Höfðatorgi, þannig að nú er komin þéttari stýring. Það er búið að færa stjórnunina frá Höfðatorgi og hingað hvað varðar leik- og grunnskólana sérstaklega. Breiðholtið verður þá eins og lítill bær eða þorp og við sitjum hér öll á sama svæðinu. Málin eru kannski leyst bara á tíu mínútum en áður tók tíma bara að ná fundi saman,“ segir Óskar.
„Hluti af okkur er í sama húsi þar sem við getum átt samstarf en svo flyst hluti af þessari þjónustu út á starfsstaðina. Sérfræðingar okkar hér, eins og félagsráðgjafar, skólasálfræðingar og kennsluráðgjafar, eru þá í miklu meiri tengslum við vettvanginn í leikskólum, grunnskólum og frístundahlutanum, “ segir Sigurlaug.
„Þau eru meira þar sem börnin eru, og það er líka svolítið nýtt. Við erum að ganga lengra á allan hátt til að fara nær barninu,“ segir Óskar.
Sigurlaug segir það sitt hlutverk að styðja við stjórnendur grunnskólanna á vettvangi og hjálpa þeim að leysa öll mál sem koma upp og það strax. Fagstjóri leikskólahluta og framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvar gegna sama hlutverki fyrir sína stjórnendur.
„Við vonumst auðvitað til þess að það leiði af sér betra skólastarf og betri þjónustu fyrir börnin,“ segir Sigurlaug og nefnir að unnið sé í nánum tengslum við velferðarsvið sem er á sama stað.
„Ef dóttir mín væri í vanda í skólanum vildi ég ekki þurfa að pæla í því hvort einhverjar stofnanir úti í bæ gætu komið á fund. Ég myndi vilja að allir kæmu saman að aðstoða barnið mitt. Ég vann í rannsókn fyrir 25 árum síðan þar sem verið var að skoða reynslu fólks sem átti mikið fötluð börn. Mér er það svo minnisstætt, og ég hugsa um það oft í tengslum við þetta verkefni, að ein móðirin lýsti þeirri þrautargöngu að þurfa að ganga á milli stofnana til að fá hjálp fyrir barnið. Það hefði verið þvílíkur munur ef eitthvert svona kerfi hefði verið til þá fyrir þessa móður,“ segir Sigurlaug og segir þau aldrei mega gleyma að verkefnið snýst fyrst og fremst um fólk.
Skóla- og frístundasvið er með miðlæga þjónustu í Borgartúni við grunnskóla borgarinnar.
„Við erum í raun búin að flytja hluta af þeirri þjónustu hingað í húsnæði þjónustumiðstöðvarinnar þar sem við erum að sinna öllu því sem kemur við skólum og frístundum í Breiðholti. Öll skóla-, frístunda- og velferðarþjónusta er því hér á sama stað,“ segir Sigurlaug og segir um 2.500 grunnskólabörn í Breiðholti.
„Annað sem hefur breyst er að hingað til hefur verið óformlegt samstarf á milli leikskólanna og grunnskólanna og frístundarinnar en nú er það að þéttast enn meira. Við erum að sjá hagkvæmni þess að þetta sé allt í samfellu og að jafnvel sé verið að vinna eftir svipuðum áherslum. Eitt nýtt tilraunaverkefni er nú í gangi í Fellahverfi sem felst í því að sami aðili er verkefnastjóri í leik- og grunnskóla í öllu sem varðar málþroska og læsi. Það styður vel við svona samstarf eins og Betri borg fyrir börn,“ segir Sigurlaug.
„Verkefnið okkar þéttir einnig samstarf á milli grunnskólanna í hverfinu og eykur þetta faglega samtal á milli stjórnenda sem svo hríslast út í starfsmannahópana. Þetta á einnig við um leikskólana. Við sjáum mikinn mun þarna,“ segir Sigurlaug.
Nú eru fjórtán mánuðir síðan verkefnið fór af stað og áhrifanna er farið að gæta.
„Þetta er fyrirmyndarverkefni sem verður svo hugsanlega fyrirmynd í öðrum hverfum, eða hægt verði að draga frá því mikinn lærdóm við að breyta þjónustunni í þessa átt annars staðar. Það var valið að byrja í Breiðholti því hér hefur ríkt mikil samstarfshefð sem var búið að þróa hér áður,“ segir Óskar.
„Við hér í grunnskólunum höfum kallað mjög eftir svona samfelldri þjónustu við börn og fjölskyldur,“ segir Sigurlaug og segir slíkt fyrirkomulag það sem koma skal.
„Við erum svolítið að brjóta hér ísinn,“ segir Óskar og segir þau enn að þróa verkefnið. Sigurlaug segir að fólk taki vel í breytingarnar.
„Við erum sátt og við heyrum að fólk sé mjög ánægt með verkefnið.“
Ítarlegra er fjallað um verkefnið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.