Arnhildur Pálmadóttir arkitekt og sonur hennar, Arnar Skarphéðinsson, nemi í arkitektúr, hafa skoðað hvort nota megi hraunrennsli líkt og í gosinu í Fagradalsfjalli til að móta burðargrind fyrir borgir og mannvirki.
Arnhildur rekur stofuna s.ap arkitektar. Hún og Arnar lýsa verkefninu í viðtali við Klöru Sól Ágústsdóttur, nema í blaða- og fréttamennsku, í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þau hafa mikið velt fyrir sér hvernig minnka megi kolefnisspor bygginga. Hægt sé að minnka kolefnissporið af rekstri bygginga allt niður í núll sé vandað til verka. Þau hafi hins vegar í huga innbundið koltvíoxíð, sem losni þegar bygging er reist og við að búa til byggingarefni á borð við steypu.
„En það er í þessum hluta losunarinnar sem stærstu tækifærin eru til að minnka kolefnisfótspor bygginga núna strax og koma þannig í veg fyrir frekari hækkun hitastigs jarðar. Til þess að það sé hægt þarf að breyta flutningskefum og framleiðsluferlum um allan heim,“ segja Arnhildur og Arnar.
Verkefni þeirra nefnist Hraunmyndanir (Lava Forming) og snýst um að nota hraunflæði sem byggingarefni fyrir grunnstoðir heillar borgar, sem gæti risið á nokkrum vikum. Hægt væri að bora niður í kvikuhólf nærri yfirborðinu til að dæla upp hrauni og stýra því til að draga úr spennu. Notuð yrðu byggingarmót og fjarstýrðar vinnuvélar til að stýra rennslinu. Verkefnið hefur fengið styrk frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
„Hraunmyndanaverkefnið er kannski ekki svo fjarstæðukennd framtíðarsýn í ljósi þess að nú gýs í Fagradalsfjalli,“ segja Arnhildur og Arnar.
Lesa má umfjöllunina í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.