Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað að íbúð á annarri hæð í Hafnarfirði um tvöleytið í nótt.
Reykkafarar voru sendir inn í íbúðina til að slökkva eld sem hafði komið þar upp í sófa. Eldurinn var aðeins bundinn við sófann og því tók skamma stund að slökkva hann, að sögn varðstjóra.
Einn var í íbúðinni þegar eldurinn kom upp en hann var kominn út þegar slökkviliðið kom á vettvang.
Slökkviliðið var einnig kallað út vegna skjólvegs sem var að fjúka við íbúðarhús í Grafarvogi um níuleytið í gærkvöldi.
Jafnframt var óskað eftir reykræstingu í íbúðarhúsi í miðbænum en það verkefni reyndist minni háttar.
Erill var í sjúkraflutningum í nótt en þeir voru um 40 talsins.