„Gjörsamlega út í hött“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gagnrýndi í þættinum Sprengisandi áform ríkisstjórnarinnar um að fara eftir litakóðunarkerfi við móttöku fólks á landamærunum.

Spurður hvort honum fyndist vit í tillögu um að litamerkja svæði eða þjóðir sagði hann að hún væri „einhvers staðar á milli þess að vera fáránleg, hlægileg og glæpsamleg“ og sagði hana „gjörsamlega út í hött“.

Hann sagði ríkisstjórnina hafa staðið sig mjög vel í faraldrinum og farið að ráðum sóttvarnayfirvalda. Þessi tillaga, sem ekki væri komin frá sóttvarnayfirvöldum, hafi aftur á móti byggst á óskhyggju og sagðist hann handviss um að við munum ekki fara eftir þessari tillögu. „Ég hef enga trú á að menn haldi í þetta, þetta er svo heimskulegt,“ sagði hann.

Eiga frekar að gagnrýna ESB

Hann sagði að hinir ýmsu ritstjórar, blaðamenn og stjórnmálamenn hafi haldið því fram að ríkisstjórnin hafi staðið sig illa í að útvega bóluefni. „Ég held að hún hafi gert nákvæmlega það sem hún átti að gera,“ sagði Kári og átti þar við samflot með Norðurlöndunum sem ákváðu að vera í samstarfi með ESB.

„Ef menn ætla að gagnrýna þetta eiga menn að gagnrýna Evrópusambandið,“ sagði hann og nefndi að miðað við markmið þess við að útvega bóluefni hafi útkoman verið klaufaleg.

„Þegar á heildina er litið höfum við staðið okkur mjög vel,“ bætti hann við og nefndi þar til sögunnar heilbrigðisþjónustuna, sóttvarnayfirvöld og fólkið í landinu.

Kári sagðist vona að bylgjan sem núna hefur verið í gangi sé búin og að mikilvægt sé í framhaldinu að hlúa vel að landamærunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert