Leikskólinn verður í fjölbýlishúsi

Bríetartún Leikskólinn verður á jarðhæðinni og útileiksvæði þar fyrir framan. …
Bríetartún Leikskólinn verður á jarðhæðinni og útileiksvæði þar fyrir framan. Þar verður tekið á móti 60 börnum á aldrinum frá 12 mánaða til þriggja ára. mbl.is/sisi

Borgarráð hefur samþykkt leigusamning vegna húsnæðis fyrir leikskóla á jarðhæð fjölbýlishússins Bríetartúns 11. Bríetartún 9-11 er 94 íbúða fjölbýlishús á sjö og tólf hæðum. Íbúðum hefur fjölgað á svæðinu á undanförnum árum og telja borgaryfirvöld eðlilegt að leikskóli sé í þessu hverfi borgarinnar. 60 börn verða tekin inn í leikskólann. Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum sl. þriðjudag að hefja formlegan undirbúning að starfsemi skólans.

Reykjavíkurborg rekur nú 63 leikskóla þar sem dvelja 5.395 börn. Að auki eru 1.260 börn í sjálfstætt starfandi leikskólum í borginni. Það eru engin nýmæli að leikskóli sé starfræktur í fjölbýlishúsum upplýsir Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Má til dæmis benda á leikskólann Klambra í stúdentagörðum við Háteigsveg og leikskóla stúdenta við Eggertsgötu á svæði Háskóla Íslands. Þá mun ný leikskóli á Hallgerðargötu 1 á Kirkjusandi verða með sama sniði. Algengast er þó að leikskólarnir séu starfræktir í sérbyggingum.

Fjölmargar ungbarnadeilir

Enginn svokallaður ungbarnaleikskóli er rekinn af hálfu Reykjavíkurborgar, en á þriðja tug leikskóla er með svokallaðar ungbarnadeildir, segir Sigrún. Leikskólinn í Bríetartúni verður fyrsti leikskóli borgarinnar sem alfarið er ætlaður ungum börnum. Dæmi eru hins vegar um einkarekna ungbarnaleikskóla í borginni. Börn, sem hefja dvöl á ungbarnadeildum, geta hafið leikskóladvöl allt frá 12-24 mánaða aldri og er miðað við að þau flytjist á deild fyrir eldri börn þriggja ára. Börn innritast á ungbarnadeildir eftir kennitölu, þau elstu fyrst, enda uppfylli þau aldursviðmið.

Sigrún segir að ungbarnaleikskólinn við Bríetartún verði opnaður í lok þessa árs í björtu og nútímalegu húsnæði sem verður innréttað sérstaklega fyrir yngstu leikskólabörnin. Þá verður annar leikskóli opnaður við Kleppsveg og í Safamýri í byrjun næsta árs, og sá fjórði á Kirkjusandi um mitt næsta ár. Einnig stendur til að stækka leikskólana Hof og Laugasól í Laugardal og Kvistaborg í Fossvogi.

Jafnan er efnt til samkeppni um nafn á leikskólum meðal barna, foreldra og starfsfólks. Væntanlega verður það gert um leið og leikskólinn tekur til starfa, segir Sigrún.

Miðað við nafnahefð leikskóla í borginni ætti nafnið Bríetarborg að koma sterklega til greina.

Fram kemur í greinargerð fjármála- og áhættustýringarsviðsReykjavíkurborgar, sem lögð var fram í borgarráði, að borgin hafi auglýsti eftir húsnæði og lóð á leigu fyrir leikskóla í lok október. Tvær umsóknir bárust og uppfyllti umsókn Íþöku fasteignafélags ehf. skilyrði auglýsingar en hin umsóknin ekki. Gengið var til samninga við Íþöku og var leigusamningur undirritaður hinn 12. mars sl. með fyrirvara um samþykki borgarráðs. Samkvæmt honum skal Íþaka afhenda Reykjavíkurborg fullbúið leikskólahúsnæði með sérútbúnu afgirtu útileiksvæði án lauss búnaðar hinn 1. nóvember nk. Um er að ræða leigu á 676 fermetra húsnæði á 1. hæð. Leigusamningurinn er tímabundinn og gildir í 10 ár frá afhendingu húsnæðisins. Reykjavíkurborg hefur þó forleigurétt við lok leigutímans. Leigugjald greiðist frá afhendingu húsnæðisins og er það krónur 2.666.000 á mánuði.

Útileiksvæði verður útbúið

Að auki mun Íþaka útbúa 520-530 fermetra afgirt útileiksvæði áfast við húsið sunnan- og austanvert. Einnig mun leikskólinn hafa aðgang að 300 fermetra útileiksvæði hússins á þjónustutíma leikskólans. Þá mun leikskólinn hafa aðgang að innisvæði Höfðatorgs, þar sem útbúið verður 250 fermetra leiksvæði fyrir börn, eigi síðar en 2023.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. mars.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert