„Undirbúningurinn okkar megin er nánast klár,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins.
„Við leitum þó enn að góðu húsnæði, og það mun að öllum líkindum skýrast á morgun hvaða hótel við notum.“
Búist er við nokkur hundruð manna fjölgun í farsóttarhúsum landsins um mánaðamótin, en þá tekur ný reglugerð heilbrigðisráðherra um breytingu á fyrirkomulagi sóttvarna á landamærunum gildi.
Gylfi Þór segir Sjúkratryggingar Íslands hafa þegar farið í útboð til að finna rými sem hýst gætu farsóttarhús.
„Ég geri ráð fyrir að við munum þurfa fleiri en eitt hótel, og jafnvel fleiri en tvö,“ segir Gylfi Þór aðspurður, og vísar í þá staðreynd að flugvélarnar sem hingað koma geta borið 150-200 manns í einu. Nokkrar slíkar geta því hæglega fyllt eitt hótel.
„En það kemur væntanlega í ljós á morgun.“
Hann segir Rauða krossinn hafa skoðað mörg, mishentug, hótel.
„En þetta er undir Sjúkratryggingum Íslands komið, þar sem þau semja um leiguna. Og við sníðum okkur bara þann stakk eftir vexti.“
Þá á Rauði krossinn eftir að klára nokkur smáatriði í fyrirkomulaginu, en allt þarf að vera klárt fyrir fimmtudaginn 1. apríl.
„Helsta áhyggjuefnið núna er varðandi innritun gestanna, því það fyrirkomulag er ekki orðið alveg klárt,“ segir Gylfi Þór. „Það þarf að ganga hratt og vel fyrir sig þegar svona mikill fjöldi gesta kemur í einu.“