Lóan er komin til landsins. Þetta staðfestir fuglaáhugamaðurinn Alex Máni Guðríðarson við mbl.is, en hann sá til hennar í fjörunni við Stokkseyri rétt fyrir hádegi í dag.
Heiðlóan hefur lengi verið talin einn helsti vorboði hér á landi, og eru það því ætíð gleðifréttir þegar hún skýtur upp kollinum.
Alex Máni, sem er 24 ára, hefur haft áhuga á og ljósmyndað hina ýmsu fugla síðan hann var 6 eða 7 ára gamall að eigin sögn. Árlegt markmið hans er að mynda eins marga fugla og hægt er, en mest hefur hann myndað 160 fugla á einu ári.