Margt fólk er enn á ferli nálægt gosstöðvunum í Geldingadölum, en lögregla ákvað að loka fyrir umferð um Suðurstrandarveg klukkan 21 í kvöld.
„Það enn þá mikil traffík hérna,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, en hann var í Geldingadölum þegar blaðamaður náði af honum tali.
„Veðrið hefur versnað núna síðasta klukkutímann, það er hríð og éljagangur. Svo það er orðið mjög varhugavert að fara gönguleiðina.“
Davíð segir veginum hafa verið lokað til að auðvelda fólki sem þegar er á svæðinu að komast þaðan burt. Rýming á gosstöðvunum hefst á miðnætti, bæði vegna veðurs og til að hvíla þá viðbragsðaðila sem hafa vaktað svæðið síðan eldgos hófst.
„Ég held að það verði opið hér á morgun, ef veður leyfir,“ segir Davíð aðspurður.
Því er ljóst að björgunarsveitarmenn fá ekki langt frí frá eldgosavaktinni.
„Við myndum þá vera mætt hér strax aftur í fyrramálið.“