Ómar sá gosmökkinn úr Grafarvogi

Gosmökkurinn úr eldgosinu í Geldingadölum frá stofuglugga Ómars Ragnarssonar.
Gosmökkurinn úr eldgosinu í Geldingadölum frá stofuglugga Ómars Ragnarssonar. Ljósmynd/Ómar Ragnarsson

„Ég ætla ekki að fljúga yfir strax sko. Vélin sem ég flýg vanalega er ekki fleyg í augnablikinu. Ég ætla bara að bíða, það eru allir að fljúga og allir að taka myndir. Ég tek bara myndir sem enginn annar tekur,“ segir Ómar Ragnarsson, fréttamaður og skemmtikraftur, í samtali við mbl.is.

Ómar tók mynd af gosmekki eldgossins í Geldingadölum sem sást frá heimili hans í Grafarvogi í dag. Hann hefur enn ekki skoðað eldgosið þó að hann sé þekktur fyrir að segja fréttir frá eldgosum.  

Á bloggsíðu sinni segir Ómar um myndina: 

„Er þar með líkast til einhvers konar ígildi gosmakkar frá gosstöðinni í Geldingadölum.

Þetta kallast á við fyrsta eldgosið sem síðuhafi minnist, Heklugosið 1947 að því leyti til að þá var hægt að fylgjast með gangi þess mikla goss í útvarpi heima hjá sér. 

23 gosum seinna er síðan loks hægt að horfa á gos beint út um gluggann heima hjá sér og á sama tíma virða fyrir sér mannlífið á verslunartorginu í Spönginni.“

Ómar hefur undir beltinu 23 eldgos 

Ómar fór þó í ferð fimm dögum fyrir gosið, til að sýna hvar væri mesti möguleikinn á að nálgast gosið og sýndi staðinn þar sem fjöldi fólks flykkist nú að til að sjá.

„Þar að auki er gosið það lítið enn þá, ég er með 23 stærri gos enn þá í minninu,“ segir Ómar og hlær.

„Sumir sáu eitthvað glitta í mökkinn á Heklugosi en ég var þá að hefja nokkurra vikna legu í mænuveiki og gat ekki hreyft mig í rúminu og ekkert gert annað en að hlusta á lýsingarnar. Þannig kynntist ég fyrsta gosinu. Þetta er hins vegar þannig að ég lít bara út um gluggann.“

Ómar Ragnarsson með eina af bókum sínum.
Ómar Ragnarsson með eina af bókum sínum. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Reynir að klára bækur  

Ómar fæst við bókaskriftir þessa dagana. Hann segir að hann sé byrjaður á fimm bókum og búinn að skrifa samtals 800 blaðsíður en engin þeirra nýtist fyrr en honum tekst að klára bók. 

„Ég er að reyna að forgangsraða, því að það er svo merkileg speki sem ég uppgötvaði nýlega að, því lengur sem maður lifir, því meiri líkur á að maður drepist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert