Reykur kom upp í P-8-kafbátaeftirlitsflugvél (Boeing P-8 Poseidon) á vegum bandaríska sjóhersins. Hún lenti á Keflavíkurflugvelli eftir atvikið að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.
Hættustigi var lýst yfir vegna vélarinnar, það var skömmu síðar dregið til baka.
Níu menn voru um borð og var flugvélin nýtekin á loft frá Keflavíkurflugvelli þegar hættuástandinu var lýst yfir. Flugvélin lenti um klukkustund síðar eftir að hafa hringsólað til að brenna eldsneyti.
Tveir sjúkrabílar voru sendir á Keflavíkurflugvöll en þeir voru afturkallaðir skömmu síðar.
Að sögn Ásgeirs eru að jafnaði tvær kafbátaeftirlitsflugvélar á vegum bandaríska sjóhersins staðsettar hér á landi til þess að sinna kafbátaeftirliti.
„Það er til skoðunar hvað það var sem þarna gerðist,“ segir Ásgeir.