Karítas Ríkharðsdóttir
„Staðan á svæðinu er bara mjög góð. Það drífur fólk að og við erum búin að koma upp bílastæðum þar sem umferðinni er stýrt,“ segir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, um stöðuna á gossvæðinu í dag.
Hann segir veðuraðstæður mjög góðar í augnablikinu og viðra vel til gönguferðar. Hann minnir þó á að það geti verið einhver hálka á gönguleiðum. „Bara þessi venjulegi aðbúnaður sem fólk þarf að muna eftir.“
Gunnar segir að mikilvægt sé í dag að halda sig aðeins uppi í hlíðum dalsins, vera vindmegin ef einhver vindur er og forðast lægðir eða dældir þar sem gas getur safnast.
„Við erum að stýra fólki inn á þær leiðir sem við teljum öruggastar hverju sinni gagnvart vindi og gasi. Það er alltaf útgangspunkturinn en svo erum við oft með breytilega vindátt. Það er í skoðun að gera þriðju gönguleiðina.“
Sem fyrr minnir aðgerðastjórn lögreglunnar á Suðurnesjum fólk á að vera vel útbúið til vetrarferða, vel skóað, helst með hálkubrodda, og vel klætt.